Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur til meðferðar umsókn um leyfi fyrir rannsókn með erfðabreytt bóluefni PROSTVAC-V/F sem er hluti af rannsókn BNIT-PRV-301. Skv. umsækjenda er í þessari rannsókn prófuð ný aðferð við meðhöndlun blöðruhálskirtilskrabbameins með nýju bóluefni sem kann að hjálpa frumum líkamans við að þekkja og drepa krabbameinsfrumurnar. Í rannsókninni verður metið hversu öruggt bóluefnið er og hversu góða verkun það hefur á krabbameinið.

Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur leggur einróma til að leyfið verði veitt. Náttúrufræðistofnun Íslands  sér ekki ástæðu til þess að leggjast gegn því að leyfið verði veitt. Lesa má umsagnir nefndarinnar og Náttúrufræðistofnunar í heild hér að neðan.

Almenningi og hagsmunaaðilum gefst færi á að kynna sér tilgreind áform um bólusetningarrannsókn og koma á framfæri athugasemdum. Að neðan eru birt helstu gögn sem eru lögð fram til grundvallar við ákvörðun um leyfisveitingu að hálfu Umhverfisstofnunar. 

Frestur til að skila inn athugasemdum er til 15. júní n.k. og skulu þær berast skriflega til Umhverfisstofnunar Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Komi fram óskir um að koma sjónarmiðum á framfæri á opnum kynningarfundi verður boðað til slíks fundar, í síðasta lagi viku áður en frestur fyrir skil á athugasemdum rennur út.

Varðandi málsmeðferð leyfisveitinga um notkun og sleppingar erfðabreyttra lífvera er vísað til laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur og reglugerðar nr. 728/2011  um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera. Lögbundnir umsagnaraðilar varðandi leyfi fyrir sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera eru Náttúrufræðistofnun Íslands og Ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur. 

Tengt efni