Stök frétt

Umhverfisstofnun leitar að starfsmanni með áhuga á umhverfisvernd og hvernig draga megi úr notkun hættulegra efna í umhverfinu. Í boði er  krefjandi starf í frjóu umhverfi sérfræðinga, þar sem áhersla er lögð á þverfaglega vinnu, erlent samstarf og möguleika á að hafa áhrif á þróun starfs.

Helstu verkefni sérfræðingsins felast m.a. í leyfisveitingu og skráningu efnavara í flokki varnarefna á íslenskan markað, umsjón með innleiðingu EB reglna í málaflokknum og kynningu þeirra fyrir íslenskum framleiðendum og innflytjendum. Enn fremur að hafa samskipti við erlenda framleiðendur sem skrá vilja vörur á íslenskan markað. Sérfræðingurinn mun einnig taka þátt í norrænum og evrópskum nefndum sem fjalla um framkvæmd málaflokksins.

Gerð er krafa um háskólapróf í efnafræði eða líffræði auk framhaldsmenntunar og er þekking á eiturefnafræði  kostur. Önnur sambærileg hagnýt menntun kemur einnig til greina. Þá krefst starfið að sá sem því sinni búi yfir aðlögunar- og samskiptahæfni og sé skipulagður í starfi. Kunnátta í ensku og einu norðurlandamáli er skilyrði.

Yfirmaður sérfræðingsins er Sigríður Kristjánsdóttir deildarstjóri, sem veitir nánari upplýsingar um starfið ásamt Sigrúnu Valgarðsdóttur starfsmannastjóra í síma 591 2000.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið.

Æskilegt er að starfsmaður geti hafið störf sem fyrst eða eftir nánara samkomulagi. Föst starfsaðstaða starfsmannsins getur verið í Reykjavík, Hellissandi, Ísafirði, Akureyri, Mývatni, Egilsstöðum eða Vestmannaeyjum, allt eftir búsetu umsækjanda. Gert er ráð fyrir að gagnkvæmur reynslutími sé sex mánuðir við ráðningu.

Umsóknir skulu sendar til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík eða á netfangið ust@ust.is. Umsóknarfrestur um starfið er til 30. maí 2012. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.