Stök frétt

Vegna frétta RÚV um eftirlit með kjölfestuvatni vill Umhverfisstofnun koma eftirfarandi á framfæri.

Í fréttum RÚV kl. 22 þann 10. apríl síðastliðinn og aftur í hádegisfréttum RÚV þann 12. apríl var því haldið fram að Umhverfisstofnun hefði eftirlit með því hvort að skip færu að ákvæðum reglugerðar um losun kjölfestuvatns. Það er rangt því eftirlit með búnaði skipa og kjölfestudagbókum er á hendi Siglingastofnunar sem sinnir eftirliti með skipum. Í fréttinni var einnig gefið í skyn að Umhverfisstofnun bæri að taka sýni úr kjölfestuvatni en rétt er að benda á að stofnunin hefur ekki eftirlit með skipum.

Enn fremur er því haldið fram að vegna þess að ekki hafa verið tekin sýni sé þar með eftirlitið lítið sem ekkert. Við setningu reglugerðarinnar lá fyrir að ekki væri gert ráð fyrir sýnatöku til að byrja með en með innleiðingu frekari reglna og alþjóðlegra samþykkta yrði hún hluti af eftirlitinu. Alþjóðlegur samningur um kjölfestuvatn liggur fyrir en hefur ekki tekið gildi á alþjóðavísu. Þess er að vænta á næstu misserum. Misjafnt er hversu langt ríki heims eru komin við að innleiða reglur um kjölfestuvatn og um sýnatöku við eftirlit. Þangað til felst eftirlit Siglingastofnunar í skoðun kjölfestudagbóka þar sem skráð eru ýmis atriði, s.s. dagsetning, landfræðileg staðsetning á upptöku og/eða losun kjölfestuvatns, rúmmál kjölfestugeyma, hita og seltustig kjölfestuvatns sem og magn kjölfestuvatns sem er tekið upp eða losað.

Umhverfisstofnun bendir á að hér er um að ræða nýja reglugerð sem setur mikilvægar skyldur á skipaútgerðir og er til mikilla bragabóta til verndar lífríki hafsins. Áður var ekkert eftirlit og núverandi reglur og eftirlit því mikil betrumbót frá því og er þess vænst að það verði eflt enn frekar.

Rétt er að benda á að eins og með margar aðrar reglugerðir um mengun frá skipum er ábyrgð á eftirliti með framkvæmd reglugerðarinnar deilt milli Umhverfisstofnunar, Siglingastofnunar Íslands og Landhelgisgæslu Íslands.

Umhverfisstofnun fagnar umræðu um kjölfestuvatn enda mikilvægt málefni á tímum loftslagsbreytinga og dvínandi líffræðilegs fjölbreytileika.