Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Höfundur myndar: Sigurður Ingason

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Fjarðalax ehf.  til að framleiða allt að 1.500 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Fossfirði. Eldið skal vera staðsett innan svæðis sem tilgreint er í viðauka starfsleyfisins.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 5. desember 2011 til 30. janúar 2012 . Kynningarfundur var haldinn 24. janúar s.l. í Baldurshaga á Bíldudal. Auk þess að fjalla um tillögu Umhverfisstofnunar um eldið í Fossfirði, var fundurinn einnig um kvíeldi Arnarlax ehf. og starfsleyfistillögu Umhverfisstofnunar fyrir hana.  Mjög góð mæting var á fundinn, eða um 40 manns en þess má geta að íbúar þorpsins eru um það bil 170.

Á fundinum var farið almennt yfir ferli við veitingu starfsleyfa og tilhögun mengunarvarnaeftirlits. Síðan var farið yfir starfsleyfistillögurnar og stöðu kærumála. Fram kom að fyrir umhverfisráðuneytinu lægju kærur vegna atriða er varða fiskeldi í Arnarfirði og Fossfirði í framhaldi af niðurstöðum Skipulagsstofnunar en að þær hefðu ekki áhrif á afgreiðslu starfsleyfis, enda fresta kærur ekki réttaráhrifum. Einnig kom fram að margvíslegir hagsmunir í nýtingu Arnarfjarðar hefðu komið fram sem hefðu kallað á nokkra yfirlegu og að í því sambandi hefði verið allnokkurt gagn af vinnu sem Fjórðungssamband Vestfirðinga hefði ráðist í við kortlagningu á nýtingu fjarðarins.

Áður en umræður hófust kom Jón Örn Pálsson með samantekt frá Fjarðarlax ehf. um vinnu rekstraraðila við umhverfisvöktun í Fossfirði.

Í umræðum eftir kynninguna var m.a. spurt um eftirlit og vöktun, viðbragðsáætlanir, strokufiska og afmörkun svæða. Fram kom að mengunarmál heyra undir starfsleyfisútgáfuna en ýmis önnur mál, þótt þau séu umhverfismál, heyra undir Fiskistofu.

Fimm aðilar sendu inn athugasemdir og viðbrögð á auglýsingatíma. Bæjarráð Vesturbyggðar kom því á framfæri að ákveðið hefði verið að gera ekki athugasemd við tillöguna. Landssamband veiðifélaga gerði athugasemdir við að ala norskættaðan lax í sjókvíum, um strokulax, erfðablöndun og örmerkingar á seiðum. Þá gerði sambandið athugasemd við fjarlægð milli sjókvíaeldisstöðva. Hafkalk ehf. sendi inn frekari upplýsingar um rekstur fyrirtækisins í Fossfirði. Andraútgerðin ehf. spurðist fyrir um notkun lúsarlyfja í fóðri. Loks sendi Skipulagsstofnun inn athugasemdir sem einkum sneru að um áfangaskiptingu, hvíld svæða og örmerkingar.

Niðurstaða Umhverfisstofnunar vegna athugasemdanna var að sett var inn ákvæði um að nota eigi umhverfisvöktun til hliðsjónar við flutning eldiskvía.

Nokkrum greinum var breytt að eigin frumkvæði Umhverfisstofnunar. Sett var inn lagatilvitnun um varp í hafið. Felld voru niður ákvæði um eldisbúnað á þeirri forsendu að það á við um önnur stjórnvöld. Einnig voru lagfærðar villur og orðalag. Nánari grein er gerð fyrir þessu í skjali sem fylgir fréttinni.

Nýja starfsleyfið öðlaðist þegar gildi og gildir til 29. febrúar 2028.

Athugasemdir við starfsleyfistillögu

Útgefið starfsleyfi