Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að starfsleyfi fyrir Stolt Sea Farm Holdings Iceland ehf. Rekstraraðili áformar að framleiða allt að 2000 tonn af senegalflúru á ári til manneldis. Eldið mun verða í stöð sem staðsett verður á landi á lóðinni að Vitabraut 7, Reykjanesi, en fráveita verður til sjávar.

Skipulagsstofnun úrskurðaði þann 18. maí 2011 að að eldi á senegalflúru (Solea senegalensis) í strandstöð, á vegum Stolt Sea Farm, við Reykjanesvirkjun HS Orku í Reykjanesbæ, sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Byggt var á þessum úrskurði við umsókn rekstraraðila um starfsleyfi.

Ekki var til staðar deiliskipulag sem gerði ráð fyrir þessum rekstri og fór rekstraraðili því fram á það við við Reykjanesbæ að auglýst yrði nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Vitabraut 7. Með auglýsingu sem birtist í B deild Stjórnartíðinda þann 31. janúar s.l. var þessu skilyrði fullnægt, en Umhverfisstofnun getur ekki samþykkt umsóknir um nýjan starfsleyfisskyldan rekstur án þess að deiliskipulag fylgi.

Eins og áður segir verður fyrirhuguð fráveita til sjávar. Samkvæmt reglugerð nr. 798/1999, um fráveitur og skólp, ber að veita öllu skólpi til sjávar minnst 5 metra niður fyrir meðalstórstraumsfjöruborð eða 20 metra út frá meðalstórstraumsfjörumörkum. Hins vegar er gert ráð fyrir því í reglugerðinni að ef það reynist ómögulegt vegna landfræðilegra aðstæðna að uppfylla þessi ákvæði um fráveitu, sé heimilt að leggja til aðrar lausnir sem heilbrigðisnefnd metur fullnægjandi.

Sú lausn sem valin er í þessari framkvæmd í stað umræddra fjarlægðarmarka er að leiða fráveitu frá sjálfu eldinu í bunustokk Reykjanesvirkjunar. Heilbrigðisnefnd Suðurnesjasvæðis féllst á þennan frágang fráveitunnar á fundi 27. október 2011 en áður hafði verið gerð grein fyrir framkvæmdinni í áðurnefndri málsmeðferð Skipulagsstofnunar. Umhverfisstofnun hafði áður gefið umsögn um þessa lausn.

Starfsleyfistillagan mun liggja frammi ásamt umsóknargögnum á skrifstofu Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12, á tímabilinu 28. mars til 23. maí 2012.

Hér að neðan má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar, umsóknargögnin, deiliskipulagið, umsögn Umhverfisstofnunar um fráveitumál og bréfi um endanlega afgreiðslu heilbrigðisnefndar um fráveituna. 

Öllum er frjálst að gera athugasemdir við starfsleyfistillöguna en þær skulu vera skriflegar, undirritaðar með nafni og heimilisfangi og sendar Umhverfisstofnun (Suðurlandsbraut 24, 108, Reykjavík). Frestur til að skila inn ábendingum er til 23. maí.

Tengt efni