Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt kynningarfund 23. febrúar síðastliðinn um viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (Emissions Trading System, ETS). Fundurinn var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík. Megintilgangur fundarins var að lýsa löggjöf Evrópusambandsins um viðskiptakerfið og áhrifum kerfisins á fyrirtæki sem heyra undir það hér á landi vegna EES-samningsins. Frá 1. janúar 2012  hefur flugstarfsemi í innanlands- og millilandaflugi fallið undir viðskiptakerfið og frá 1. janúar 2013 mun stærstur hluti iðnaðarframleiðslu hér á landi bætast við. Eftir að kerfið hefur að fullu verið innleitt í íslenskan rétt mun það ná yfir um 40% af losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Á fundinum fjölluðu starfsmenn Umhverfisstofnunar um markmið og uppbyggingu viðskiptakerfisins og helstu skyldur fyrirtækja, meðal annars um skil losunarheimilda og árleg skýrsluskil til Umhverfisstofnunar. Auk þess var rætt um skráningarkerfi losunarheimilda og viðskipti með losunarheimildir. Þá fjallaði Jackie Harvey-Watts, sérfræðingur frá British Standards Institution (BSI), um reglur sem gilda um vottun skýrslna í viðskiptakerfinu.

Fundurinn var vel sóttur og að erindum loknum gafst fundargestum kostur á að ræða við framsögumenn. Spurningar voru af ýmsum toga og vörðuðu til að mynda reglur um úthlutun losunarheimilda til fyrirtækja, aðgengi að upplýsingum, tengsl viðskiptakerfis ESB við önnur viðskiptakerfi með losunarheimildir og skilyrði vottunaraðila til að starfa á Íslandi.

Með hliðsjón af því hve margir lögðu leið sína á kynningarfundinn má vera ljóst að áhugi á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir er mikill hér á landi. Glærur frá fundinum eru aðgengilegar hér.

Tengt efni