Stök frétt

Landvarðarnámskeið hófst í húsnæði Umhverfisstofnunar 16. febrúar síðastliðinn. Alls eru 34 nemendur skráðir á námskeiðið að þessu sinni og er þriðjungur nemenda í fjarnámi. Tvær staðlotur eru í námskeiðinu þar sem allir nemendur þurfa að mæta. Námskeiðið spannar rúmlega 100 kennslustundir og koma fjölmargir kennarar að því. Störf landvarða og helstu áhrifaþættir starfsins eru  brennidepill námskeiðsins. Nemendur kynnast störfum og skyldum landvarða, helstu starfssvæðum, þjónustuhlutverki starfsins og ábyrgð á starfsumhverfi sínu. Náttúrutúlkun og fræðsla eru stærsti hluti námskeiðsins enda meginhlutverk margra landvarða. Náttúruvernd og stjórnsýsla umhverfismála skipa sinn sess og nemendur fá innsýn í stjórn málaflokks náttúru- og umhverfismála. Öryggismál verða sífellt viðameiri og hefur kennslustundum í þeim málaflokki fjölgað. Hápunktur námskeiðsins er námsferð í Skaftafell og verður hún farin 1. til 4. mars. Kennsla er í formi fyrirlestra, hóp- sem einstaklingsverkefna svo og umræðna. Að loknu námskeiði fá nemendur landvarðarréttindi.

Landvarðanámskeið 2012