Stök frétt

Nýlega undirrituðu Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar og Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, samstarfssamning. Þar kemur m.a. fram að stofnanirnar séu sammála um að efla með sér samstarf er lýtur að fræðslu og menntun á sviði náttúru- og umhverfisverndar. Markmið samstarfsins er að efla menntun landvarða enda er menntun landvarða hluti af námsbraut Landbúnaðarháskóla Íslands í Náttúru- og umhverfisfræðum með áherslu á þjóðgarða og verndarsvæði. Stofnanirnar munu vinna saman að þróun menntunar, endurmenntunar og þekkingar landvarða. 

Nemendur sem ljúka námi af umræddri braut og aðrir sem ljúka námi af öðrum áherslum í Náttúru- og Umhverfisfræðum, taki þeir í námi við skólann tilteknar valgreinar, hafa rétt til að kalla sig landverði sbr. 1 gr. reglugerðar nr. 61/1990 og til að taka að sér störf sem slíkir á náttúruverndarsvæðum, segir í samstarfssamningum. 

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Kristín Linda Árnadóttir og Ágúst Sigurðsson undirrituðu samninginn.