Stök frétt

Höfundur myndar: Sigurður Ingason

Umhverfisstofnun gaf nýlega út starfsleyfi fyrir Laxa fiskeldi ehf. fyrir sjókvíaeldi á þremur stöðum í Reyðarfirði sem nánar eru tilgreindir í starfsleyfinu. Í nýju starfsleyfi er rekstraraðila heimilt að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði. Eldið skal vera staðsett innan svæða sem tilgreind eru í viðaukum starfsleyfisins.

Umhverfisstofnun auglýsti opinberlega tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 21. október til 16. desember 2011. Auk þess hélt stofnunin kynningarfund þann 3. nóvember í Fjarðahóteli á Reyðarfirði þar sem Umhverfisstofnun kynnti tillögu að starfsleyfi og lög og reglur um starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Á fundinn mættu rösklega 30 manns og fjörugar umræður urðu um starfsleyfi og þróun í laxeldi, strauma í Reyðarfirði og dreifingu mengunar auk þess sem fundarmenn beindu nokkrum spurningum til rekstraraðila um gang verkefnisins.

Fimm aðilar sendu umsagnir um tillöguna. Fjarðabyggð mælti með útgáfu starfsleyfis en hafði athugasemdir sem sneru að efnistöku í sjó, tryggingar, fyrirhugaða hafnsækna starfsemi í Reyðarfirði og gildistíma. Landssamband veiðifélaga gerði athugasemdir við að ala norskættaðan lax í sjókvíum, um strokulax, erfðablöndun og örmerkingar á seiðum. Samherji hf. gerði athugasemdir í sinni umsögn um heimildanotkun Laxa fiskeldis ehf. í umsóknarferlinu þegar fyrirtækið spurðist fyrir um matsskyldu hjá Skipulagsstofnun og taldi að Umhverfisstofnun hefði brotið stjórnsýslulög. Samherji var áður með starfsleyfi fyrir kvíaeldi í Reyðarfirði sem rann út árið 2010. Hagsmunafélagið Skelrækt kom á framfæri upplýsingum um að félagið gerði ekki athugasemdir vegna kvíaeldisins. Skipulagsstofnun taldi í sinni umsögn að tillagan samræmdist þeirri framkvæmd sem kynnt var í fyrirspurn um matsskyldu. Nánari grein er gerð fyrir viðbrögðum Umhverfisstofnunar við fram komnum umsögnum í skjali sem fylgir fréttinni.

Niðurstaða Umhverfisstofnunar var að ekki voru gerðar breytingar á texta starfsleyfisins aðrar en óverulegar orðalagsbreytingar.

Nýtt starfsleyfi hefur þegar öðlast gildi og gildir til 31. janúar 2028.

Útgefið stafsleyfi Laxa ehf.

Athugasemdir við starfsleyfi Laxa ehf.