Stök frétt

Á strandsvæðum (utan netlaga um 115 m út frá stórstraumsfjöru) er ekki til staðar skilgreint skipulagsvald. Aðal vandamálið vegna nýtingar á haf- og strandsvæðum við Ísland stafar af því að hagsmunir hinna ýmsu aðila eru mismunandi, en erfitt er að fá yfirsýn yfir fyrirhugaða nýtingu og þar með meta hvaða hagsmunaárekstrar eru hugsanlega til staðar þar sem ekkert skipulag er til staðar. Þá er enginn einn aðili ábyrgur fyrir því að stuðla að samþættingu ólíkra sjónarmiða og þar með tryggja að ólíkir hagsmunir eða sjónarmið væru vegin og metin og mat lagt á hvernig best væri að haga nýtingu og/eða verndun svæða. Á landi eru gerðar skipulagsáætlanir á vegum sveitarfélaga þar sem tekin hefur verið ákvörðun um landnýtingu og svæði skilgreind með mismunandi landnýtingu í huga. Með því hefur verið tekin afstaða til ólíkra sjónarmiða og hagsmuna er varða landnýtingu á viðkomandi svæðum.

Það er mat Umhverfisstofnunar að brýn þörf sé á því að bregðast við þessu ástandi með sérstakri löggjöf um skipulag haf- og strandsvæða. Lagasetningunni verði ætlað að skera úr um það hver beri ábyrgð á því að skipuleggja vernd og hóflega nýtingu strand- og hafsvæða í þágu almannahagsmuna. Þá er brýnt að löggjöfin tryggi aðkomu hagsmunaaðila og almennings að skipulagsferlinu.

Um útgáfu starfsleyfa fyrir fiskeldi

Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir fiskeldi í sjó þar sem ársframleiðsla er meira en 200 tonn, en viðkomandi heilbrigðisnefnd vegna fiskeldis sem er minna að umfangi. Hlutverk starfsleyfis er að afmarka leyfilega mengun frá starfseminni, tilgreina eftirlit með henni og kveða á um vöktun á áhrifum á umhverfið. Við útgáfu starfsleyfis vegna fiskeldis í sjó tekur Umhverfisstofnun því mið af mengandi þáttum starfseminnar og setur skilyrði varðandi rekstur starfseminnar, mengunarvarnaeftirlit og mengunarvarnir. Skilyrðin eru meðal annars sett til að tryggja að mengun verði ekki yfir umhverfismörkum eða að annarra óæskilegra mengunaráhrifa gæti vegna starfseminnar.

Fyrir utan starfsleyfi þarf sérhvert fiskeldi rekstrarleyfi frá Fiskistofu, auk þess sem fiskeldi af ákveðinni stærð getur verið háð lögum um mat á umhverfisáhrifum og koma mál fiskeldisfyrirtækjanna í því sambandi til kasta Skipulagsstofnunar. Skilyrði í starfsleyfum Umhverfisstofnunar taka tillit til þeirra atriða sem fram koma við umfjöllun Skipulagsstofnunar.