Stök frétt

Vegna fréttar Stöðvar 2 miðvikudaginn 4.janúar vill Umhverfisstofnun koma því á framfæri að ekki er um að ræða ákvörðun stofnunarinnar heldur tillögur starfshóps á vegum Umhverfisráðuneytisins. Umhverfisráðherra skipaði starfshópinn sem falið var að gera tillögur að aukinni vernd svartfugla og aðgerðum sem stuðla að endurreisn þeirra. Umhverfisstofnun átti fulltrúa í hópnum ásamt fleiri aðilum. Umhverfisstofnun skilaði séráliti við þessar tillögur.

            Hér má nálgast skýrsluna í heild

Sérálit Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofnun leggur til að veiðitími á langvíu, álku og stuttnefju verði styttur og verði frá 1. október til 31. mars. Stytting veiðitímans er byggð á þeim rökum sem fram hafa komið varðandi fugl í sárum í september og að með þessum hætti sé fuglinum gefinn meiri möguleiki á vorin þegar hann er í tilhugalífi auk þess sem fuglinn er farinn að verpa fyrr.

Umhverfisstofnun leggur til að tímabundið sölubann verði sett á langvíu, álku og stuttnefju, einnig egg þessa tegunda, til ársins 2017 og að staðan verði þá endurmetin m.t.t veiða og sölu. Á þessu 5 ára tímabili verði reynt að fylla upp í það þekkingargat sem er til staðar þannig að hægt verði að leggja mat á þróun stofnanna. Mikilvægt er að kanna hlutfall varpfugla í veiði, varpárangur og ungahlutfall til að fá raunhæfa mynd af stöðu stofnanna. Veiðar á þessum tegundum eru um eða innan við 1% af stofnstærð og verður því að teljast að áhrif veiða séu mjög lítil. Umhverfisstofnun telur að með styttingu veiðitíma og sölubanni verði hægt að draga verulega úr veiðum líkt og gert var með rjúpuna.

Umhverfisstofnun leggur einnig mikla áherslu á það að þær aðgerðir sem gripið verði til nái einnig yfir hlunnindaveiðar en í 20. gr laga 64/1994 kemur skýrt fram „..skulu friðunarákvæða laga þessara ekki vera til fyrirstöðu því að nytja megi hlunnindi eftirleiðis„ og því myndu takmarkanir sem þarfnast ekki lagabreytinga ekki ná til hlunnindaveiðanna. Þannig gætu hlunnindaveiðimenn áfram veitt og selt afla.