Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Frá og með 1. janúar 2012 mun flugstarfsemi innan EES-svæðisins falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (EU Emission Trading System, ETS). Frá þeim tíma mun viðskiptakerfið ná til flugs sem felur í sér flugtak eða lendingu á flugvelli á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. í einhverju af 27 aðildarríkjum ESB, auk Íslands, Noregs og Liechtenstein. Flugrekendur sem falla undir kerfið munu þá þurfa að afla losunarheimilda sem samsvara árlegri losun CO2 frá starfseminni. Er þetta hluti að aðgerðum sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Flugrekendur sem Umhverfisstofnun hafa umsjón með nú fengið yfirlit yfir hversu margar endurgjaldslausar losunarheimildir þeir fá til ársins 2020, en ef flugrekendur þurfa frekari losunarheimildir þurfa þeir að kaupa þær á almennum markaði. Umhverfisstofnun áætlar að hafa umsjón með rúmlega 180 flugrekendum, en mörg þeirra fljúga einungis fáar ferðir árlega, en fyrsta stopp þeirra er hér á landi.

Samkvæmt lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda, með síðari breytingum, úthlutar Umhverfisstofnun endurgjaldslausum losunarheimildum til flugrekenda sem falla undir ETS og eru undir umsjón íslenska ríkisins, í samræmi við árangursviðmið sem umhverfisráðherra ákveður með reglugerð. Ákvæði þeirrar reglugerðar eru í samræmi við ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar um árangursviðmið fyrir flugstarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Umhverfisráðherra setti þann 9. desember 2011 reglugerð nr. 1131/2011, um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til flugrekenda, og er hún í samræmi við ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 21. október 2011. Með reglugerðinni hefur verið ákveðið eitt árangursviðmið fyrir viðskiptatímabilið 2012 og annað fyrir viðskiptatímabilið 2013-2020. Á tímabilinu 2012 fá flugrekendur úthlutað 0,6797 losunarheimildum fyrir hverja 1000 tonnkílómetra, en fyrir tímabilið 2013-2020 fá flugrekendur úthlutað á hverju ári 0,6422 losunarheimildum fyrir hverja 1000 tonnkílómetra.

Níu flugrekendur, þar af tveir íslenskir, sóttu um endurgjaldslausar losunarheimildir til Umhverfisstofnunar. Byggt á ofangreindum árangursviðmiðum og vottuðum upplýsingum frá flugrekendum um fjölda tonnkílómetra í starfsemi þeirra árið 2010 hefur Umhverfisstofnun reiknað úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til flugrekenda í viðskiptakerfi ESB fyrir viðskiptatímabilið árið 2012 og fyrir hvert ár á viðskiptatímabilinu 2013-2020.

Losunarheimildir eru í tonnum af koldíoxíði (CO2)

Umhverfisstofnun mun úthluta losunarheimildum á reikning viðkomandi flugrekanda í skráningarkerfinu fyrir 28. febrúar 2012 og eftir það fyrir 28. febrúar ár hvert.

Nánari upplýsingar og ítarefni má sjá á heimasíðu Umhverfisstofnunar  og heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.