Stök frétt

Undanfarið hefur verið umfjöllun um starfsemi tannhvítunarstofa hér á landi í fjölmiðlum. Slíkar stofur eru starfsleyfisskyldar hjá Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga og mega ekki vera starfandi án slíks leyfis. 

Umhverfisstofnun hefur heimildir fyrir því að á tannhvítunarstofum sé verið að nota tannhvítunarefni með allt að 16% vetnisperoxíði (H2O2) eða ígildi þess. Samkvæmt reglugerð um snyrtivörur nr. 748/2003 mega eingöngu vera á markaði hér á landi tannhvítunarefni sem innihalda að hámarki 0,1% vetnisperoxíðs eða ígildi þess í öðrum efnum. Almennt er talið að sá styrkur dugi ekki til tannhvítunar að neinu marki. Tannhvítunarefni sem eru á markaði og eru notuð sem eru sterkari en ofangreint eru samkvæmt þessu, ólögleg á markaði. 

Nýlega tók í gildi Evrópusambandinu ný tilskipun sem heimilar notkun á tannhvítunarefni með allt að 6% vetnisperoxíði eða ígildi þess. Markaðssetning og notkun er þó háð þeim skilyrðum að fyrsta notkun slíkra efna sé ávallt undir eftirliti þess sem hefur sérkunnáttu og leyfi til starfa við tennur fólks (dental practitioners) s.s. tannlæknum. Tilskipun þessi hefur enn ekki verið innleidd á Íslandi þannig að ofangreindar reglur varðandi 0,1% innihald vetnisperoxíðs eða ígildi þess í snyrtivörum, gilda hér þangað til. Öll markaðssetning, notkun og sala snyrtivara sem ekki uppfylla kröfur snyrtivörureglugerðarinnar er því ólögleg.