Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Rjúpnaveiðitímabilið í ár hefst á morgun föstudaginn 28. október. Umhverfisstofnun vil benda á breytt fyrirkomulag rjúpnaveiða 2011 þar sem ákveðið hefur verið að fækka veiðidögum úr 18 í 9 vegna afkomubrests í stofninum. Leyfilegir veiðidagar árið 2011 eru  eins og áður segir 9 á þessu rjúpnaveiðitímabili og skiptast þeir niður á fjórar helgar.

Leyfilegt er að veiða eftirfarandi daga:

Föstudaginn 28.október - sunnudaginn 30.október ( 3 dagar )
Laugardaginn 5.nóvember - sunnudaginn 6.nóvember ( 2 dagar)
Laugardaginn 19.nóvember - sunnudaginn 20.nóvember ( 2 dagar)
Laugardaginn 26.nóvember - sunnudaginn 27.nóvember ( 2 dagar)

Sölubann gildir áfram á rjúpu og öllum rjúpnaafurðum og áfram er friðað fyrir veiði á ákveðnu svæði á Suðvesturlandi. Kort af friðuðu svæði vegna rjúpnaveiða á Suðvesturlandi - stærri útgáfa

Rjúpnaskyttur eru sem fyrr hvattar til að stunda hófsamar og ábyrgar veiðar og ganga vel um náttúruna. Umhverfisstofnun hvetur veiðimenn til notkunar á rafrænu veiðibókinni og einnig að kynna sér vel hvar þeir mega veiða. Virkt eftirlit verður með veiðunum á landi og úr lofti. Ökum aðeins vegi og merkta slóða en ekki utan þeirra, akstur utan vega er stranglega bannaður.

Náttúrufræðistofnun Íslands hvetur rjúpnaskyttur til að klippa annan vænginn af rjúpunum sem veiddar eru og senda stofnuninni. Af vængjunum má ráða hvort um er að ræða fugl á fyrsta ári eða eldri fugl. Fuglum af sama veiðisvæði eða úr sömu sveit þarf að halda saman í poka þannig að hægt sé að sundurgreina sýnin eftir landshlutum.

Vængina má senda til:
Náttúrufræðistofnun Íslands
Urriðaholtsstæti 6-8
212 Garðabær

Náttúrufræðistofnun mun greiða sendingarkostnað sé þess óskað. Menn eru beðnir um að láta nafn sitt og heimilisfang fylgja með sýnunum þannig að hægt sé að senda þeim, sem það vilja, niðurstöður greininga úr þeirra sýni og heildarniðurstöðurnar í lokin.

Nánari upplýsingar um rjúpnaveiði seinasta árs.