Stök frétt

Nýtt fyrirkomulag við stjórn vatnamála

Tilgangurinn með innleiðingu vatnatilskipunar ESB er að tryggja verndun og heilnæmi vatns á Íslandi til framtíðar.

Innleiðing tilskipunarinnar og framkvæmd laganna mun krefjast þátttöku og mikillar samvinnu fjölmargra fagstofnana, sveitarfélaga, hagsmunaaðila, frjálsra félagasamtaka og almennings sem miða að því sameiginlega marki að tryggja verndun og heilnæmi vatns á Íslandi.

 

Undirritun samninga vegna vinnu við innleiðingu á stjórn vatnamála

Í gær var stigið stórt skref í þessari vinnu þegar skrifað var undir samninga við Hafrannsóknastofnunina, Veðurstofu Íslands og Veiðimálastofnun. Samningarnir snúast um nokkur fyrstu verkefnin á innleiðingatímabili stjórnar vatnamála hér á landi.  Á næstu vikum verða síðan útbúnir samningar við þessar og fleiri stofnanir um verkefni sem vinna þarf á næsta ári.

 

Framkvæmd innleiðingarinnar

Innleiðing og framkvæmd þessa nýja kerfis vatnastjórnar gerist í áföngum í 6 ára tímabilum. (innleiðingartímabil 2011-2015, fyrsta framkvæmdatímabil 2016-2021, annað framkvæmdatímabil  2022-2027 o.s frv.)

Fram til ársins 2016 á að flokka vatn í vatnshlot, skipta vatnshlotum í gerðir, greina álag og áhrif þess á vatnshlot, setja umhverfismarkmið, útbúa aðgerðaráætlun og setja saman vöktunaráætlun. Lokaafurð innleiðingatímabilsins er vatnaáætlun sem Umhverfisstofnun mun gera tillögu að. Gert er ráð fyrir að vatnaáætlunin verði samþykkt af umhverfisráðherra í lok árs 2015.  Vöktunaráætlun kemur til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2015 og aðgerðaráætlunin eigi síðar en á árinu 2018.

Rammatilskipun ESB um verndun vatns (Vatnatilskipun, 2000/60/EB) var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Í reglugerðum sem eiga stoð í lögunum, nr. 535/2011 og 935/2011, er nánar kveðið á um framkvæmd og stjórnskipulag þessarar nýju löggjafar.