Stök frétt

Í janúar sl. skipaði bæjarstjórn Vesturbyggðar starfshóp um framtíðarskipulag Látrabjargs og nágrennis, en í aðalskipulagi sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að svæðið verði friðlýst. Í gildandi náttúruverndaráætlun 2009-2013 er einnig gerð tillaga um stofnun þjóðgarðs á svæðinu. Undirbúningur mögulegrar friðlýsingar, sem og framkvæmd hennar, ef af verður, eru í eðli sínu samráðsferli þar sem að koma allir þeir aðilar sem hagsmuna hafa að gæta á svæðinu.

Forsenda friðlýsingar er samkomulag við alla rétthafa viðkomandi svæðis, þ.e. sveitarfélag, landeigendur og, eftir atvikum, ábúendur. Á vormánuðum og í sumar hefur verið unnið að því að kynna hugmyndina og fá fram viðbrögð frá landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu.  Ráðinn var heilsárssérfræðingur á vegum Umhverfisstofnunar, Hákon Ásgeirsson, til að vinna að verkefninu og sinna landvörslu á svæðinu.  Hann mun hafa vetrarsetu á Patreksfirði.

Upphaflega var eingöngu litið til mögulegrar friðlýsingar landsins frá Breiðavík suður í Keflavík, en þegar á leið kom í ljós að talsvert margir landeigendur utan þess svæðis en innan svæðisins sem tilheyrði gamla Rauðasandshreppi hafa áhuga á að taka þátt í umræðu um mögulega friðlýsingu og jafnvel lýst áhuga á að friðlýsa sitt eigið land sem hluta þjóðgarðs.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra heimsækir svæðið dagana 26. og 27. september til að hitta landeigendur og annað áhugafólk um framhaldið. Ráðherra mun funda á alls fimm stöðum en þar á meðal verður opinn fundur um friðlýsingu í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði, mánudaginn 26. september kl. 18.30.