Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Höfundur myndar: Völundur Jónsson

Í dag, miðvikudaginn 21. september, kl. 16 verður Sigríðarstígur við Gullfoss opnaður formlega. Sett hafa verið upp fjölmörg upplýsingaskilti um fossinn og Sigríði í Brattholti og baráttu hennar fyrir verndun Gullfoss. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, mun opna Sigríðarstíg formlega. Gerðar hafa verið umbætur á aðgengi ferðamanna að undanförnu við Gullfoss og nú verða upplýsingar aðgengilegar öllum, allt árið um kring á fjórum tungumálum.

Upplýsingar um Gullfoss og Sigríði í Brattholti

Talið er sennilegt að Gullfoss hafi hlotið nafn sitt vegna þess að oft falli gullinn kvöldroði á jökulvatnið. Önnur kenning er sú að regnboginn, sem oft sést í sólskini í vatnsúðanum frá fossinum, hafi orðið kveikja að nafngiftinni. Enn aðra nafnakenningu er að fnna í Ferðabók Sveins Pálssonar. Á Gýgjarhóli bjó fyrrum auðugur bóndi sem Gýgur hét. Hann átti gull og gat ekki unnt neinum þess að eignast það eftir sinn dag. Brá hann því á það ráð að varpa kistli með gullinu í fossinn og heitir hann Gullfoss upp frá því.

Sigríður Tómasdóttir var fædd í Brattholti, 24. febrúar 1871 og bjó þar alla ævi. Hún var næst elst af 13 börnum Margrétar Þórðardóttur húsfreyju og Tómasar Tómassonar bónda í Brattholti. Það var í kringum 1875 sem ferðamenn fóru almennt að venja komur sínar að Gullfossi. Fram að þeim tíma var ekki auðvelt að komast að fossinum, enda yfir vegleysur og óbrúaðar ár að fara. Sigríður í Brattholti og systur hennar fylgdu oft gestum að Gullfossi og þær lögðu fyrsta stíginn niður að fossinum. Sigríður í Brattholti lést haustið 1957 á 87. aldursári.

„Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílówattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum." Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, 1978.