Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) heldur árlega upp á dag ósonlagsins sem ákveðinn var 16. september, en þann dag árið 1987 undirrituðu aðildaríki Vínarsáttmálans bindandi samkomulag um að draga úr framleiðslu og notkun ósoneyðandi efna, Montrealbókunina. Ástæður þessa samnings voru vísindalegar sannanir fyrir að ákveðin efni, svokölluð klórflúorkolefni, yllu eyðingu ósonlagsins í háloftunum, sem leiddu til aukningar á útfjólublárri geislun sólar við yfirborð jarðar.

Aðgerðir sem farið var í á vettvangi Montrealbókunarinnar hafa leitt til þess að Evrópulöndin hafa dregið úr notkun sinni á ósoneyðandi efnum um 98%. Ísland hefur tekið virkan þátt í aðgerðum til að minnka notkun ósoneyðandi efna í þjónustu og iðnaði, og bannaði strax árið 1989 notkun klórflúorkolefna í úðabrúsum. Aðrar aðgerðir voru að minnka innflutningsheimildir á vetnisklórflúorkolefnum í áföngum til ársins 2010.  Ísland náði þeim áfanga á síðasta ári að flytja ekki inn nein ósoneyðandi efni, og má því segja að Ísland sé eitt fyrsta land Evrópu til að hætta notkun þessara efna. Í dag eru hér á landi vetnisklórflúorkolefni nær eingöngu í gömlum búnaði sem mun úreldast og verða bannaður eftir 31. desember 2019.

Nánari upplýsingar um viðburði dagsins má sjá á heimasíðu UNEP.