Stök frétt

Haustið er uppskerutími og margir sem njóta þess að fara út í náttúruna og týna bæði ber og sveppi sér til matar og ánægju. En um nýtingu almennings á þessari auðlind, rétt eins og öðrum, gilda þó ákveðnar reglur sem gott er að vera meðvitaður um áður en haldið er af stað.

Berja-, sveppa- og jurtatínsla

Sérstakt ákvæði er í náttúruverndarlögum um heimild almennings til að tína ber, sveppi og jurtir. Þar kemur fram að öllum er heimil tínsla utan eignarlanda, þ.e. í þjóðlendum. Innan eignarlanda er tínsla hins vegar háð leyfi landeiganda. Þó er öllum heimilt að tína í eignarlöndum ber, sveppi eða jurtir til neyslu á vettvangi. Sú regla gildir einnig um fjörugróður. Mikilvægt er að hafa í huga að virða ber áður greindar reglur um umferð um land þegar haldið er til tínslu.

Umferð almennings

Almenningi er heimilt samkvæmt lögum að ferðast um landið í lögmætum tilgangi, en jafnframt er sú skylda lögð á alla að sýna ítrustu varúð í allri umgengni við náttúruna og gæta þess að hún verði ekki fyrir spjöllum. Sýna ber eiganda lands og nytjarétthöfum fyllstu tillitssemi og hlíta tilmælum þeirra um umgengni við landið og fylgja slóðum og stígum þar sem það á við. Ákveðnar reglur gilda um umferð manna eftir því hver fararmátinn er, þ.e. hvort farið er akandi, ríðandi, gangandi, um vötn eða hvort ferðin er á eigin vegum eða skipulögð hópferð.

Helstu reglur um umferð

  • Gangandi umferð – För um þjóðlendur er almennt heimil. Heimilt er án sérstaks leyfis landeiganda að fara um óræktað eignarland gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum. Landeigandi má þó takmarka umferð um afgirt eignarland í byggð. Hafa ber í huga að óheimilt er að girða niður á vatns-, ár- eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi manna. Einnig verður að hafa hlið eða stiga á girðingu ef girt er fyrir forna þjóðleið eða skipulagðan stíg. Ferðir um ræktað eignarland og dvöl þar er háð samþykki eiganda eða rétthafa.
  • Umferð á reiðhjólum – Sömu reglur og um gangandi umferð en sérstök áhersla er á að fylgja ber skipulögðum vegum og stígum eins og kostur er.
  • Ríðandi umferð – Sömu reglur og um gangandi umferð með nokkrum viðbótum. Fylgja ber skipulögðum reiðstígum eins og kostur er. Þegar farið er um hálendi þarf að vera með nægt fóður meðferðis. Heimilt er að fengnu leyfi landeiganda eða rétthafa að setja upp aðhöld eða næturhólf fyrir hross. Bannað er að reka hrossastóð yfir gróið land þannig að hætta sé á náttúruspjöllum og þegar farið er um markaðar slóðir skal ekki teyma fleiri hross en svo að þau rúmist innan slóðar og reka verður hross í lest á slíkum slóðum.
  • Umferð vélknúinna ökutækja – Akstur utan vega er stranglega bannaður og refsiverður. Vegur skilgreinist sem varanlegur vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað er að staðaldri til umferðar. Undantekning frá þessu er að heimilt er að aka á jöklum og snævi þakinni og frosinni jörð svo fremi sem ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Þá eru heimildir í reglugerð til að aka utan vegavegna starfa við landbúnað, landgræðslu og heftingu landbrots, línulagnir, vegalagnir og lagningu annarra veitukerfa, björgunarstörf, rannsóknir og landmælingar.