Stök frétt

Höfundur myndar: Árni B. Stefánsson

Kalmanshellir í Hallmundarhrauni var friðlýstur við hátíðlega athöfn í félagsheimilinu Brúarási í Hvítársíðu sl. föstudag, 19. ágúst.

Við það tækifæri lagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra áherslu á að mikilvægt sé að umsjón og eftirlit með hellum sé með besta móti enda er þar um sérstæðar jarðmyndanir að ræða. Þannig mætti tryggja vernd þeirra og þau náttúruverðmæti sem í þeim felast.

Við athöfnina voru landeigendur, heimamenn, sveitarstjórnarmenn, fulltrúar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands auk ráðherra og starfsfólks umhverfisráðuneytisins. Þá var þar viðstaddur Árni B. Stefánsson hellaáhugamaður sem sagði frá kynnum sínum af Kalmanshelli og sýndi myndir úr honum. Bar hann m.a. kveðju bandaríska hellafræðingsins, Jay R. Reich sem ásamt öðrum kortlagði hellinn árið 1993.

Leiddi rannsókn Reich í ljós að Kalmanshellir er í raun hellakerfi, í heildina um fjögurra kílómetra langt, sem gerir hann að lengsta helli landsins. Hann hefur að geyma einstakar hraunmyndanir, dropasteina, rennslismynstur og storkuborð, m.a. næstlengsta hraunstrá í heimi, sem er 165 sentímetra langt.

Með friðlýsingu Kalmanshellis er leitast við að vernda hellinn, hinar einstæðu jarðmyndanir hans og hellakerfið allt. Markmiðið með friðlýsingunni er að koma í veg fyrir röskun og skemmdir á jarðmyndunum og eru því sérstakar takmarkanir á aðgangi að viðkvæmasta hluta hellisins.

Í ávarpi sínu gerði Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar að umtalsefni þá þróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár í því starfi Umhverfisstofnunar sem snýr að friðlýsingum. Hefur hún falið í sér tvær mikilvægar breytingar.  Annars vegar er í auknum mæli verið að friðlýsa land í einkaeigu eða í eigu sveitarfélaga. Hins vegar hefur það færst í aukana eftir lagabreytingu árið 1999 að Umhverfisstofnun kýs að fela öðrum umsjón friðlýstra svæða, bæði sveitarfélögum og einstaklingum,  þ.e. landeigendum sjálfum.  Er það mjög í anda þeirrar hugsunar að viðkvæmum svæðum sé best fyrir komið í höndum þeirra sem standa þeim næst og best til þekkja. Er þá gerður sérstakur umsjónarsamningur milli stofnunarinnar og viðkomandi aðila. Sú var einmitt raunin við friðlýsingu Kalmanshellis, en slíkur samningur var gerður við landeigendur Kalmanstungu I og II.

Þróunin kallar á nýja nálgun sem felur í sér nána samvinnu Umhverfisstofnunar og hagsmunaaðila, einkum landeigenda, um friðlýsingarskilmálana. Endanlegur texti er þannig sameiginleg niðurstaða allra þeirra sem að hafa komið, allir eiga í honum hlutdeild og um hann ríkir sátt.  Friðlýsingarferlinu lýkur ekki við undirritun ráðherra. Sú merka athöfn er sannarlega mikilvægur áfangi, en áfram heldur samstarf Umhverfisstofnunar og hagsmunaaðila á svæðinu um verndaráætlun og verndaraðgerðir um langa framtíð. Það samstarf þarf að vera byggt á traustum grunni sem allir eru sáttir við.

Í ávarpi sínu nefndi umhverfisráðherra m.a. á að Árni B. Stefánsson hefði unnið tillögu að flokkun hella hér á landi í samræmi við þær aðferðir sem hellafræðingar víða um heim hafa stuðst við. Kristín Linda upplýsti þá að Umhverfisstofnun hefði þegar í undirbúningi slíka vinnu. Skipaður yrði starfshópur á næstu dögum til að vinna stefnumótun um íslenska hella og flokkun þeirra. Í hópnum munu m.a. sitja fulltrúar Hellarannsóknarfélagsins, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og eftir atvikum aðrir hagsmunaaðilar.