Stök frétt

Höfundur myndar: Árni B. Stefánsson

Kalmanshellir í Hallmundarhrauni verður friðlýstur næstkomandi föstudag, þann 19. ágúst. Friðlýsingarathöfnin fer fram í félagsheimilinu Brúarási í Borgarbyggð og hefst kl. 15.

Hellirinn var kannaður og mældur upp í leiðangri íslenskra og bandarískra hellaáhugamanna sumarið 1993 undir forystu Jay Reich. Reyndist hellirinn vera rúmir fjórir km að lengd og þar með vera lengsti mældi hraunhellir landsins. Hluti hellisins er töluvert hruninn. Tilefni friðlýsingar Kalmanshellis er að ein hellisgreinin, um 500 m löng, skartar óvenju glæsilegum og ósnortnum hraunmyndunum, jafnt dropstráum sem dropsteinum og telst vera náttúrufyrirbæri á heimsvísu. M.a. er þar eitt lengsta þekkta hraunstrá jarðar, 165 cm að lengd.

Þrátt fyrir að freistingin væri vissulega töluverð, settu leiðangursmenn 1993, þ.m.t. Jay Reich, það einstaka fordæmi að neita sér um að skoða myndanir skreytta hluta Kalmanshellis nema á myndum vegna þess hve einstaklega viðkvæmur hann er. Aðeins þeir 3-4 sem uppgötvuðu, mældu og/eða ljósmynduðu hellishlutann fóru þar um. Þrátt fyrir að aðeins örfáir hellamenn hafi síðan farið þar um, sýndi það sig við samanburð mynda árið 2005, að fáein dropstrá voru horfin (höfðu brotnað við umferð) í mynni viðkvæma hlutans. Var þá hafist handa að gangast í lokun viðkvæma hlutans og friðlýsingu hellisins alls.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda Kalmanshelli, einstæðar jarðmyndanir hellisins og hellakerfið allt og koma í veg fyrir röskun og skemmdir á jarðmyndunum. Sérstakar takmarkanir eru á aðgangi viðkvæmasta hlutans. Umferð um hellinn er eingöngu heimil í fylgd og leiðsögn þess sem hefur umsjón með náttúruvættinu eða öðrum aðila í umboði Umhverfisstofnunar. Umferð um viðkvæma hluta hellisins, sem þegar hefur verið lokað, þar sem dropsteinsmyndanir eru viðkvæmastar, er alfarið óheimil nema brýnir almannahagsmunir séu í húfi, að mati Umhverfisstofnunar og umsjónaraðila.