Stök frétt

Hlunnindaveiðtímabil á lunda er nú hafið en veiðin hófst 1.júlí og stendur veiðitímabilið til 15.ágúst ár hvert. Viðkomubrestur hefur orðið hjá lundanum við sunnanvert landið undanfarin ár sem rakin hefur verið til hruns í sandsílastofninum við landið. Það sama hefur sést hjá öðrum fuglategundum sem reiða sig á sílin. Þessa ástands hefur ekki síst orðið vart í Vestmannaeyjum en þar hefur verið viðvarandi viðkomubrestur í lundastofninum  frá árinu 2005. Vegna þessa hefur Vestmannaeyjabær ákveðið að engar lundaveiðar verði leyfðar í eyjunum á árinu 2011. Umhverfisstofnun vill koma því á framfæri til veiðimanna að veiðar á lunda og öðrum svartfugli í háf á tímabilinu 1.júli til 15.ágúst eru bundnar hlunnindarétti og aðeins þeir sem hafa gilt hlunnindaveiðikort á viðkomandi veiðisvæði mega veiða fuglinn á umræddu veiðitímabili. Skrifleg staðfesting sveitarstjórnar eða sýslumanns á áðurnefndum hlunnindarétti þarf að fylgja með umsókn um hlunnindakort.