Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun ákvað í febrúar á þessu ári að kanna styrk díoxína í jarðvegi til þess að fá skýra mynd af stöðu mála hvað varðar losun díoxína út í umhverfið á Íslandi. Forsaga málsins er sú að díoxín mældust yfir mörkum í lok desember 2010 í mjólk í Skutulsfirði í nágrenni við sorpbrennsluna Funa. Umhverfisstofnun lagði þá þegar í byrjun janúar til við umhverfisráðuneytið að eldri sorpbrennslum yrði gert að uppfylla hertari skilyrði um losun mengandi efna sem giltu fyrir nýrri sorpbrennslur. Einnig var ákveðið að taka sýni í nágrenni við allar hugsanlegar uppsprettur díoxína, s.s. sorpbrennslna, stóriðju og áramótabrenna. Sýni voru tekin eftir að frost fór úr jörðu og send erlendis til greiningar. Tekin voru 50 sýni af jarðvegi út um allt land, 27 sýni í nágrenni sorpbrennsla bæði starfandi og aflagðra, 10 í nágrenni iðnfyrirtækja, 4 sýni úr jarðvegi í brennustæðum og 9 viðmiðunarsýni. Einnig var tekið sýni úr sjávarseti í Skutulsfirði (í nágrenni við brennslustöð) og úr sjávarseti úr Álftafirði til viðmiðunar. Sýnatakan fór fram seinnihluta maí mánaðar. Sum sýni á Suðurlandi voru tekin þar sem aska frá gosinu í Grímsvötnum lá yfir sýnatökustað. Greiningar á öskunni sýna að hún hefur engin áhrif á niðurstöður. Niðurstöður greininga liggja nú fyrir.

Á heildina litið er niðurstaða mælinganna sú að díoxín í jarðvegi er í öllum tilvikum undir þeim mörkum sem kalla á takmarkanir á nýtingu, hreinsun jarðvegs eða geta skapað hættu fyrir almenning og lífríki. Almenningur þarf ekki að hafa áhyggjur af því að rækta í jarðvegi, tína ber eða nýta aðrar náttúruafurðir. Búið er að loka sorpbrennslunni Funa og mun því ekki verða meiri uppsöfnun á díoxínum í jarðvegi af hennar völdum.

Við sorpbrennsluna í Vestmannaeyjum mældist styrkur díoxína í jarðvegi á bilinu 5-40 pg/g og því þarf að mati Umhverfisstofnunar að draga úr losun díoxína þar til að koma í veg fyrir frekari uppsöfnun.

Á tveimur brennustæðum, í Vestmanneyjum og Skutulsfirði, mældist  styrkur díoxína í jarðvegi á bilinu 5-40 pg/g og mun Umhverfisstofnun beina þeim tilmælum til heilbrigðisnefnda að efniviður brennanna sé þannig að sem minnst verði til af díoxínum við brunann.

Umhverfismörk

Við mat á niðurstöðum úr mælingum á díoxínum í jarðvegi hefur Umhverfisstofnun stuðst við þýsk umhverfismörk, en ekki eru til umhverfismörk í íslenskum reglugerðum. Lægstu mörk eru við 5 pg/g* (lægstu aðgerðamörk). Þegar díoxín mælast á bilinu 5-40 pg/g (WHO-PCDD/F TEQ) er brugðist við með því að finna uppsprettu losunarinnar og takmarka losun fra henni en ekki er talin þörf á því að takmarka nýtingu eða skipta um jarðveg.

Í eftirfarandi töflu er yfirlit yfir þýsku umhverfismörkin og varnaraðgerðir:

Summa díoxina (WHO-PCDD/F-TEQ) í jarðvegi

Aðgerðir og tegund svæðis

< 5 pg/g jarðvegs

Engar aðgerðir

5 – 40 pg/g jarðvegs

Ef uppsprettan finnst í nágrenninu, ætti að minnka áhrifin

40 – 100 pg/g jarðvegs

Ef uppsprettan finnst í nágrenninu, skal minnka áhrifin. Eftirfarandi landbúnað ætti að forðast: ræktun lágvaxinna berja, grænmetis og plantna. Takmarka húsdýrahald.

> 100 pg/g jarðvegs

Hreinsun á jarðvegi á leiksvæðum, Jarðvegur skal hreinsaður eða skipt út.

> 1000 pg/g jarðvegs

Hreinsun á jarðvegi á búsvæðum. Jarðvegur skal hreinsaður eða skipt út.

> 10000 pg/g jarðvegs

Hreinsun á jarðvegi á iðnaðarsvæði. Jarðvegur skal hreinsaður eða skipt út.

*pg jafngilda 10-12g. 1 pg/g jafngilda því að það mælist 1mg í hverjum 1000 tonnum af jarðvegi (þurrvigt)