Stök frétt

Hvítabjörn var felldur í Rekavík á Hornströndum 2. maí 2011. Var hann skotinn úr þyrlu Landhelgisgæslunnar tæpum sex klst. eftir að hann sást fyrst á vappi í fjörunni í Hælavík. Björninn var fluttur samdægurs til Reykjavíkur og afhentur Náttúrufræðistofnun Íslands sem fór þess á leit við Karl Skírnisson, dýrafræðing á Tilraunastöðinni á Keldum að sjá um rannsóknir á dýrinu. Athuganir hófust samdægurs en krufning var gerð daginn eftir og var hún gerð í samvinnu við Ólöfu Guðrúnu Sigurðardóttur, dýralækni og dýrameinafræðing á Keldum og Þorvald Björnsson, hamskera Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Hér var á ferðinni ung birna. Aldursgreining sem byggir á talningu árhringja á tannrótum sýndi að birnan var ríflega þriggja ára (talin fædd í janúar 2008). Hún var við það að verða kynþroska en einungis 95 kílóa þung og 173 cm löng. Birnan er talin hafa lotið forsjár móður fram á seinni hluta vetrar 2010 en eftir það hafi hún þurft að finna fótum sínum forráð ein og óstudd. Gróflega áætlað nam fituforði birnunnar ekki nema um 5% af líkamsþyngd og er þessi forði talinn óeðlilega lítill sé miðað við árstímann (maí) þegar hvítabirnir verða hvað feitastir sé litið til ársins alls, hafi þeir náð að nærast eðlilega. Aðalfæða hvítabjarna eru kópar sela-tegunda sem kæpa á útmánuðum á hafísnum langt norður af landinu. Útilokað er að þessi óverulegi fituforði hefði nægt birnunni til að tímgast þetta árið. Krufning leiddi ekkert annað óeðlilegt í ljós.

Birnan var ekki smituð af tríkínum en í maga fannst sníkjuþráðormur (Contracaecum sp.) sem oft finnst í maga til dæmis kampsels og hringanóra. Gömlu birnirnir tveir sem tóku land á Skaga í júní 2008 og unga birnan sem felld var ríflega 4ra ára við Ósland í Þistilfirði í janúar 2010 voru ekki með þessi sníkjudýr. Tvö þeirra voru engu að síður smituð af tríkínum, sníkjuþráðormi sem getur borist í menn jafnt sem villt spendýr, húsdýr og gæludýr. Mikilvægt er að hindra að tríkínur nái fótfestu hér á landi, en Ísland er eitt fárra landa þar sem þessir sníkjuormar, sem reynst geta mönnum lífshættulegir, eru ekki landlægir.

Birnan hafði ekki nærst áður en hún var felld en nokkrar gráleitar vængfjaðrir, væntanlega úr fýl, fundust í maga og nokkrar bringufjaðrir af svartfugli fundust aftast í meltingarveginum. Þessi niðurstaða bendir til þess að birnan hafi ekki verið alveg nýkomin í land, heldur verið búin að narta í drasl sem varð á vegi hennar en vængir viðfestir brjóstbeinagrindum löngu dauðra fugla varðveitast um langa hríð á fjörum. Nokkur mosablöð og blað af krækilyngi í maga eru talin hafa slæðst ofan í birnuna þegar þorsta var svalað uppi á landi. 

Tilraunastöðinni á Keldum í júní 2011 

Karl Skírnisson,  dýrafræðingur karlsk@hi.is