Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Við mælingar á efnainnihaldi flugelda á vegum yfirvalda í Danmörku á síðastliðnu ári kom í ljós að hluti þeirra innihélt þrávirka efnið hexaklórbensen (HCB) sem hefur um langt skeið verið bannað vegna þeirra alvarlegu áhrifa sem það hefur á umhverfið og heilsu manna. Í framhaldi af þessum fregnum ákvað Umhverfisstofnun að mæla HCB í andrúmslofti í Reykjavík yfir síðustu áramót.  

Mælingin fór fram á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar og stóð yfir frá kl. 22:00 þann 31. 12. 2010 til kl. 02:00 þann 01. 01. 2011. Niðurstöður efnagreininga hafa nú borist og mældist styrkur HCB í andrúmslofti 2,7 ng/m3. Bakgrunnsstyrkur efnisins hér á landi er talinn vera 0,003 ng/m3 samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands frá Stórhöfða í Vestmanneyjum. Styrkur HCB sem mældist yfir áramótin var því umtalsvert hærri en ætluð bakgrunnsgildi. Umhverfisstofnun telur því ljóst að flugeldar og skottertur sem voru á markaði hér um síðustu ármót hafi innihaldið bannað efnið hexaklórbensen. Ekki er talið að HCB í þessu magni hafi haft teljandi áhrif á heilsu fólks um áramótin en mikilvægt er að draga sem mest úr heilsuspillandi efnum í umhverfinu.

Umhverfisstofnun hefur ákveðið, í samvinnu við nokkrar heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, að standa fyrir sýnatökum og mælingum á innihaldi flugelda sem fluttir eru til landsins á næstu mánuðum fram að áramótum. Stofnunin væntir þess að eiga góða samvinnu við innflytjendur vegna þessara aðgerða og hefur sent þeim bréf  þar sem þessum upplýsingum er komið á framfæri til þeirra. Það er á ábyrgð innflytjenda að tryggja að flugeldar innihaldi ekki efni sem eru bönnuð, og mikilvægt að þeir flytji aðeins inn löglega flugelda og fái staðfestingu frá framleiðanda um að flugeldarnir innihaldi ekki HCB, ef mögulegt er. Komi í ljós að flugeldar innihaldi hexaklórbensen munu eftirlitsaðilar sjá til þess að þeir flugeldar fari ekki í sölu.

Um HCB

HCB er þrávirkt efni sem safnast upp í umhverfinu og í lífverum. Það brotnar niður á afar löngum tíma og getur í millitíðinni borist langar leiðir í lofti, vötnum eða sjó og hefur efnið mælst í umhverfinu fjarri mögulegum uppsprettum. HCB er talið geta valdið alvarlegum heilsuskaða eins og krabbameini og skaðað starfsemi lifrar og nýrna svo eitthvað sé nefnt. Hexaklórbensen var áður fyrr notað sem varnarefni og í ýmis konar iðnaði en nánast öll notkun þess hefur nú verið bönnuð með alþjóðlegum aðgerðum á borð Stokkhólmssamninginn um bann við framleiðslu, notkun og losun þrávirkra lífrænna efna.