Stök frétt

Nú þegar sumarið er komið og aðsókn að sundlaugum landsins eykst vill Umhverfisstofnun vekja athygli fólks og þá sér í lagi foreldra og forráðamanna barna á að ný reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum tók gildi um síðustu árarmót. Í reglugerðinni eru ýmis ný og breytt ákvæði sem stuðla að öryggi barna í sundlaugum.

Börn yngri en 10 ára  verða að vera í fylgd með syndum einstaklingi sem er 15 ára eða eldri. Viðkomandi má ekki hafa með sér fleiri en tvö börn, nema um sé að ræða foreldri eða forráðamann barna.

Þegar hópar barna yngri en 10 ára fara í sund mega ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers leiðbeinanda,  sem er ábyrgur fyrir hópnum, og gæslumanna lauga. Forráðamenn hópa skulu kynna sér reglur sund- og baðstaða og aðstoða starfsfólk við gæslu barnanna.

Til að auðvelda leiðbeinanda eða ábyrgðarmanni  hópa að fylgjast með hverju barni skulu hópar barna sérstaklega auðkenndir með áberandi lit á sundhettum, armböndum, vestum eða á annan sambærilegan hátt, sem hóparnir útvega sjálfir.