Stök frétt

Árlega tekur Umhverfisstofnun saman tölur yfir magn og ráðstöfun úrgangs í landinu og hefur nú lokið við að taka saman tölur fyrir árið 2009. Ekki er hægt að álykta annað en að niðursveifla efnahagslífsins komi vel fram í þessum tölum.

Heildarmagn úrgangs hafði vaxið ár frá ári á tímabilinu 1995-2008 en á milli áranna 2008 og 2009 varð tæplega 17% minnkun. Fækkun íbúa á milli sömu ára var innan við 1% og getur hún því ekki útskýrt þennan mikla samdrátt í úrgangsmagni. Samdráttur í efnahagslífi verður því að teljast líkleg skýring. Blandaður úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum minnkaði um 30% á milli 2008 og 2009 á meðan flokkaður úrgangur minnkaði um rúmlega 12%. Það er því ljóst að þrátt fyrir efnahagsástandið slá landsmenn ekki slöku við flokkunina. Þróun í ráðstöfun úrgangsins er svipuð og verið hefur síðustu ár. Það hlutfall sem fer til urðunar minnkar enn og er komið niður í 31% og hlutur jarðgerðar stækkar. Hlutur annarrar endurvinnslu stendur hins vegar í stað en hann stækkaði mikið fram til 2007. Brennsla úrgangs var einnig svipuð árið 2009 og árið á undan. Í heild hefur hlutur endurnýtingar stækkað lítillega á milli áranna.