Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur um nokkuð skeið haft til meðferðar erindi frá eiganda Kúludalsár í Hvalfjarðarsveit í tengslum við veikindi hrossa á bænum og hugsanlegra tengsla við aukningu á styrk flúors í beinum hrossa í nágrenni álvera. Hvað varðar veikindi hrossa á bænum Kúludalsá var það niðurstaða Matvælastofnunar að þau einkenni sem lýst sé í fyrirliggjandi gögnum samræmist ekki þekktum einkennum vegna flúormengunar. Því sé ekki ástæða að ætla að þau tengist styrk flúors í beinum.

Hins vegar í ljósi upplýsinga um aukningu á styrk flúors í beinum og í ljósi sívaxandi álframleiðslu hér á landi telur Umhverfisstofnun að uppkomin séu veigamikil rök fyrir því að ráðist verði í heildstæða úttekt á styrk flúors í beinum og tönnum stórra langlífra íslenskra grasbíta, um náttúrulegan breytileika, m.a. eftir landsvæðum, og skoðun á því hvort og þá við hvaða aðstæður gæti skaðlegra áhrifa flúormengunar. Stofnunin hefur boðað til fundar með félagi álframleiðenda þar sem þetta mál er m.a. á dagskrá og hyggst taka málið upp við umhverfisráðherra.