Stök frétt

Í byrjun mars s.l fóru fram mælingar á útblæstri frá Sorpeyðingarstöðinni í Vestmannaeyjum. Niðurstöður bárust Umhverfisstofnun nú í apríl. Sorpeyðingarstöð Vestmannaeyja mælist enn með rúmlega tvöfaldan styrk af ryki í útblæstri, borið saman við losunarmörk í starfsleyfi. Of mikið ryk í útblæstri hefur verið vandamál hjá stöðinni í þó nokkurn tíma og hefur Umhverfisstofnun krafist úrbóta og hafið þvingunaraðgerðir vegna þessa, en áform um sviptingu starfsleyfis voru send rekstaraðila í febrúar síðastliðnum að undangenginni áminningu sem var veitt fyrirtækinu í maí 2010. Aðrir mengunarþættir sem mældir voru eru undir mörkum starfsleyfis. 

Í meðfylgjandi töflu má sjá hluta af niðurstöðum úr mælingunum, samanborið við viðmiðunarmörk í reglugerð, um brennslu úrgangs.

Sorpeyðingarstöð

Mörk í stafsleyfi

Ryk alls mg/Nm3

420

200

Saltsýra mg/Nm3

40

250

Kolmónoxíð mg/Nm3

50

100

Lífræn efnasambönd mg/Nm3

2

20

Díoxín ng/Nm3

12,5

Engin mörk

Niðurstöður hafa verið umreiknaðar miðað við hita 273 K, þrýstingur 101,3 kPa og 11% O2 sem þurrt gas. (Nm3 er normalrúmmetri.) 


Engin mörk eru í gildi fyrir losun díoxíns hjá eldri sorpbrennslum skv. reglugerð 739/2003 um brennslu úrgangs, en Umhverfisstofnun hefur lagt til við umhverfisráðuneytið að öllum slíkum stöðum verði gert að uppfylla hertari kröfur, þ.á.m. um díoxín. Núverandi staða er sú að þrjár eldri brennslur eru starfræktar á Íslandi, stöðin í Vestmannaeyjum, á Kirkjubæjarklaustri og á Svínafelli í Öræfum en ákveðið hefur verið að loka síðastnefndu stöðinni á næstu vikum. Árið 2007 mældist styrkur díoxíns í útblæstri hjá Sorpeyðingarstöðinni 8,4 ng/Nm3 en mælist nú 12,5 ng/Nm3. Mörk fyrir losun díoxíns sem gilda fyrir nýrri sorpbrennslur eru 0,1 ng/m3.  

Umhverfisstofnun ákvað fyrr á þessu ári að mæla díoxín í jarðvegi í nágrenni mögulegra uppsprettna hérlendis. Stofnunin hefur lagt mat á hverjar séu helstu hugsanlegu uppsprettur díoxíns á Íslandi en ekki eru til sértækar mælingar á díoxín í umhverfinu. Matið er byggt annars vegar á mælingum á útblæstri frá sorpbrennslum og hins vegar alþjóðlegum losunarstöðlum fyrir mengandi starfsemi og opnar brennslur (s.s. áramótabrennur). Mælingarnar eru gerðar til þess að fá upplýsingar um mögulega uppsöfnun á díoxíni svo hægt sé að leggja mat á hugsanlega áhrif á lífríki og umhverfið. Stofnunin telur nauðsynlegt að staða mála hvað þetta varðar sé skýr og leggur því í viðamiklar mælingar.

Mælt verður á eftifarandi stöðum á landinu

Skutulsfirði

 1. Jarðvegssýni á lóð og í næsta nágrenni brennslunnar
 2. Jarðvegssýni á jörðinni Engidalur inni í botni Skutulsfjarðar
 3. Jarðvegssýni í Holtahverfi – þéttbýliskjarni næstur brennslunni
 4. Sýni úr sjávarseti  innst í Skutulsfirði
 5. Jarðvegssýni frá Skarfaskeri/Hnífsdal – áhrifasvæði eldri sorpbrennslu

Aðrar sorpbrennslur

 1. Jarðvegssýni úr næsta nágrenni brennslunnar á Kirkjubæjarklaustri
 2. Jarðvegssýni úr næsta nágrenni brennslunnar í Vestmannaeyjum
 3. Jarðvegssýni úr næsta nágrenni brennslunnar á Svínafelli
 4. Jarðvegssýni úr næsta nágrenni brennslunar á Húsavík
 5. Jarðvegssýni úr næsta nágrenni Kölku á Reykjanesi

Önnur mengandi starfssemi þar sem díoxín getur myndast

 1. Jarðvegssýni úr Hvalfirði í nágrenni Norðuráls og Elkem
 2. Jarðvegsýni úr nágrenni Alcoa í Reyðarfirði
 3. Jarðvegssýni úr nágrenni Álvers Rio Tinto í Straumsvík
 4. Jarðvegssýni úr nágrenni Sementsverksmiðjunnar
 5. Jarðvegssýni úr nágrenni Als - álvinnslu
 6. Jarðvegssýni þar sem áramótabrennur eru haldnar árlega

Einnig verða tekin samanburðarsýni fjarri mengandi starfsemi.

Um díoxín

Díoxín er þrávirkt lífrænt efni sem getur valdið heilsutjóni í dýrum og mönnum. Rannsóknir benda til þess að áhrifin séu minni í mönnum en tilraunadýrum. Rúm 90% af því díoxíni sem maðurinn fær í sig kemur í gegnum fæðu, sérstaklega úr feitum mat, s.s. mjólkurvörum, kjöt- og fiskmeti. Talið er að um 2-10% af díoxíni í mönnum megi rekja til innöndunar.

Losun díoxíns á Íslandi er minni en hjá nágrannaþjóðum okkar. Á síðastliðnum 20 árum hefur dregið hratt úr losun díoxíns í heiminum og minnkaði losun í ESB-27 ríkjunum úr 11 kg árið 1990 niður í rúm 2 kg árið 2008. Ísland losaði um 11 grömm árið 1990 en um 4 g árið 2008. Finnland losar lítið miðað við flestar Evrópuþjóðir, eða aðeins rúmlega 15 g á ári, álíka og Írland. Noregur losaði um 20 g á árinu 2008 en Svíþjóð rekur lestina meðal Norðurlandaþjóða með rúm 35 g á ári. Bretland losaði um 200 g árið 2008.

Umhverfisstofnun tók saman skýrslu árið 2010 um losun ýmissa þrávirkra lífrænna efna þar sem m.a. kemur fram að dregið hefur úr heildarlosun díoxíns á Íslandi um 66% frá 1990 til ársins 2008 og um 82% í sorpbrennslu og úrgangsmeðhöndlun. Heildarlosun var 11,3 g I-TEQ (díoxinígilid) árið 1990 en 3,9 g I-TEQ árið 2008. Á árinu 2008 var losun frá áramótabrennum 1,8 g I-TEQ og frá sorpbrennslum og orkuiðnaði 0,6 g I-TEQ af díoxín. Ástæðan fyrir því að heildarlosun hefur dregist saman er fyrst og fremst að mörgum opnum og eldri sorpbrennslum hefur verið lokað og reglur um sorpbrennslur hertar frá árinu 2003.

Losunarmörk - Umhverfismörk

Díoxín hefur enga hagnýta eiginleika eins og sum eiturefni og er því hvergi notað og er ekki framleitt í sérstökum tilgangi, en verður til við ýmsar mannlegar athafnir. s.s. sorpbrennslu, ýmsan iðnað, áramótabrennur, sinubruna o.fl. Einungis hafa verið sett losunarmörk á díoxín fyrir sorpbrennslustöðvar. Losunarmörk þar eru 0.1 ng/m 3 fyrir nýjar sorpbrennslustöðvar og fer mælingin fram í reykháfi stöðvanna. Losunarmörkin eru miðuð við losun pr. rúmmetra og heildarlosun háð magni og tegund úrgangs sem er brenndur og loftflæði stöðvarinnar. Þannig getur það verið að sorpbrennslustöð getur mælst með hærra gildi í útblæstri í samanburði við aðra stöð en samt sem áður losað minna magn af díoxín út í umhverfið. Eins og raunin er hérlendis þar sem mælingar sýna t.d. að losun á díoxín í útblæstri var hærri á Kirkjubæjarklaustri (9,5 ng/m3) en í Skutulsfirði (2,1 ng/ m3) en vegna þess hversu miklu meira var brennt af sorpi í Skutulsfirði er heildarlosunin mun meiri þar en á Kirkjubæjarklaustri. Þar sem díoxín er efni sem safnast upp í umhverfinu skiptir mestu hvert heildarmagn losunar er hvað varðar umhverfisáhrif. Íslendingar brenna minna af úrgangi en aðrar þjóðir og losa þar af leiðandi minna magn af díoxíni út í umhverfið vegna sorpbrennslu. Viðmiðunarmörk fyrir losun díoxíns eru losunarmörk en hvorki umhverfismörk né heilsuverndarmörk.

Stofnunin þekkir ekki til þess að sett hafi verið umhverfismörk fyrir díoxín í umhverfinu heldur er almennt miðað við hve mikið menn fá í sig í gegnum fæðuna og eftirlit haft með magni díoxíns í matvælum. Á heimasíðu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar eru sett fram drög að mörkum varðandi inntöku og eru þau 70 pg á hvert kg líkamsþyngdar á mánuði. Enda er talið að rúm 90% af því díoxíni sem maðurinn fær í sig komi í gegnum fæðu. Engin mörk eru um heildarlosun díoxíns í hverju ríki fyrir sig eða frá einstökum sorpbrennslum.

Losunarmörk eru mörk fyrir leyfilega losun frá atvinnurekstri sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Mörkin geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.

Umhverfismörk er leyfilegt hámarsgildi mengunar í tilteknum viðtaka s.s. andrúmslofti, byggt á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess (s.s. heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk.) Dæmi: Mörk varðandi svifryk og brennisteinsvetni.

Tengdar fréttir