Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Nýverið voru samþykkt á Alþingi lög til stjórnar vatnamála. Frumvarpið var lagt fram til kynningar á vorþingi 2010 en það er til innleiðingar vatnatilskipunar Evrópusambandsins.

Frumvarpið tekur mið af löggjöf Norðurlandanna, en einnig var horft til löggjafar í Skotlandi og Írlandi. Umhverfisstofnun verður lögbært yfirvald og sér um að unnar verði áætlanir sem gert er ráð fyrir í lögunum í samvinnu við aðrar stofnanir og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga. Landið verður eitt vatnaumdæmi, ein vatnastjórnaráætlun verður gerð fyrir landið í heild svo og ein vöktunaráætlun og ein aðgerðaáætlun. Lögin gera ráð fyrir því að landinu verði skipt í undirsvæði til hagræðis, og í hverju undirsvæði starfi vatnasvæðanefnd sem skipuð er fulltrúum Umhverfisstofnunar, sveitarstjórna, hagsmunaaðila og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga á svæðinu. Með vatnasvæðanefndum eiga að starfa ráðgjafanefndir, annars vegar ráðgjafanefnd fagstofnana og eftirlitsaðila og hins vegar ráðgjafanefnd hagsmunaaðila. Í ráðgjafanefnd hagsmunaaðila skal meðal annars tilnefna fulltrúa atvinnulífs, hagsmunasamtaka og frjálsra félagasamtaka. Nánar verður kveðið um skipan og fjölda fulltrúa í ráðgjafanefndum í reglugerðum sem settar verða. Vatnaráð skal hafa yfirumsjón með gerð tillögu að vatnastjórnaráætlun, vöktunaráætlun og aðgerðaáætlun og veita umsagnir um reglugerðir sem settar eru á grundvelli laga um vatnastjórn.

Í lögunum eru skilgreind nýyrði, en þau helstu eru hugtökin vatnshlot, sem er stjórnsýslueining vatns oft afmörkuð sem allt það vatn sem er að finna í einu stöðuvatni, á eða strandsjó. Önnur eru eins og magnstað grunnvatns, en það er mælikvarði á það hversu mikil bein eða óbein vatnstaka hefur haft á grunnvatnshlot. Einnig er skilgreint nýyrðið vistmegin, en það er ástand lífríkis vatnshlots sem skilgreint hefur verið sem mikið breytt eða manngert. Hugtakið forgangsefni, sem reyndar er ekki nýtt, er skilgreint í lögunum. Um er að ræða efni sem eru skaðleg og þrávirk og valda alvarlegri mengun eða eitrun í vatnsumhverfinu eða út frá því og er raðað í forgangsröð eftir hættu sem þau skapa fyrir vatn og lífríki þess. Setja skal tímaáætlun varðandi bann og takmörkun á losun þeirra á grundvelli áhættumats fyrir hvert og eitt þeirra. 

Verið er að vinna reglugerðir um stjórnsýslu vatnamála og flokkun vatna, sem sendar verða til kynningar svo fljótt sem unnt er.

Umhverfismarkmið, sem setja skal á grundvelli vatnastjórnarlaganna, byggja á því að vatn hafi verið flokkað í vatnshlot og gerðir vatnshlota eftir eiginleikum, álagi og ástandi vatnsins. Matið á ástandi vatnsins skal byggja á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni fyrir hverja vatnshlotagerð og taka mið af líffræðilegum breytum auk formfræðilegra og efnafræðilegra stuðningsbreyta eftir því sem við á. Flokkunin byggir í grunninn á flokkun heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga á vatni sem aðlöguð verður nýja kerfinu.  Allt vatn skal vernda þannig að gæði þess versni ekki og endurheimta skal gæði vatns þannig að þau verði að lágmarki með gott vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand.

Vatnastjórnunaráætlun ásamt vöktunaráætlun og aðgerðaáætlun skal vinna á næstu árum, og koma til framkvæmda eigi síðar en 2018. Í vatnastjórnaráætluninni á að koma fram verndunaráætlun fyrir neysluvatn og öll vatnsverndarsvæði, vatnavistkerfi og votlendi sem beint eru háð vatni og svæðum sem njóta verndar samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerðum. Að auki skal Umhverfisstofnun vinna stöðuskýrslu um ástand vatns og skal hún vera tilbúin 2013.

Vatnsverndaráætlunin á að vera stefnumarkandi í vatnsvernd og eiga aðrar áætlanir svo sem vegna skipulagsmála, náttúruverndar, orkunýtingar og samgangna að vera í samræmi við hana.

Umhverfisstofnun hóf á síðasta ári undirbúning vinnu við samningu reglugerða um flokkun vatna, vatnasvæðanefndir og ráðgjafanefndir. Litið er til nágrannalandanna í þeirri vinnu sem og öðrum sem viðkemur vatnatilskipuninni.

Nánari upplýsingar um innleiðingu vatnatilskipunarinnar.