Stök frétt

Á nýjum vef Umhverfisstofnunar er að finna margar nýjungar. Nú eru upplýsingar um öll friðlýst svæði aðgengilegar í gegnum Íslandskort og sömuleiðis upplýsingar um eftirlit með mengandi starfsemi. Einnig er hægt að finna fullt af upplýsingum um hættuleg efni í vörum og grænan lífstíl, jafnvel grænt kynlíf!

Vefnum er skipt í tvennt, annars vegar upplýsingar fyrir einstaklinga og hins vegar upplýsingar fyrir fyrirtæki og opinbera aðila. Við undirbúning að opnun nýju síðunnar komumst við fljótlega að því að þær upplýsingar sem henta fyrirtækjum henta ekki endilega almenningi og öfugt. Þess vegna skiptum við svæðinu bara í tvennt, en auðvitað geta allir skoðað báða hlutana eftir áhuga. Við settum okkur nýja upplýsingastefnu árið 2009 í kjölfar mikilla breytinga á stofnunni árið 2008 sem kemur til framkvæmda með nýja vefsvæðinu. Við viljum nefnilega miðla eins miklu og við getum, alltaf meira heldur en minna og það höfum við haft að leiðarljósi við gerð síðunnar. Ein helsta nýjungin á síðunni er að nú getur hver sem er fylgst með eftirliti stofnunarinnar með mengandi starfsemi á Íslandi. Við teljum það til hagsbóta fyrir alla að upplýsingar um helstu umhverfiskröfur og stöðu mála hvað varðar eftirlit og þvingunarúrræði séu öllum aðgengileg og opin. Enda á það líka að vera þannig í anda opinnar stjórnsýslu. Það eina sem þú þarft að gera til að kynna þér eftirlitið er að smella á flipann eftirlit í hægra boxinu með Íslandskortinu á forsíðunni, smella svo á kortið og byrja að kynna þér starfsemina sem við höfum eftirlit með. Skýrslurnar sjálfar koma svo inn á svæðin þegar þær eru tilbúnar en eftirlitsmennirnir klára skýrslurnar á næstu vikum. Því miður eru ekki komnar eins ítarlegar upplýsingar um öll fyrirtækin og við vildum, en það kemur á næstu mánuðum.

Önnur nýjung á vefnum er aðgengið að upplýsingum um friðlýst svæði hefur verið stórbætt með Íslandskortsvalmyndinni. Með sama hætti og lýst var að ofan má skoða öll friðlýstu svæðin, það þarf bara að finna flipann friðlýst svæði og smella á myndina og þá kemur kort með öllum svæðunum þar sem hægt er að komast inn á síður með upplýsingum um hvert svæði fyrir sig. Við uppfærðum upplýsingarnar um mörg svæðin og ætlum að gera enn betur hvað það varðar á næstu mánuðum. Rúsínan í pylsuendanum eru svo nýju myndirnar en við ætlum að setja inn myndir fyrir öll svæðin á næstunni og þar á meðal 360° myndir (hringmyndir) frá mörgum svæðum. Nú þegar er hægt að skoða 360° myndir af Gullfossi og Geysi. Það er því góð hugmynd að gerast vinur Umhverfisstofnunar á Facebook til að fylgjast vel með.

Það eru ótal fleiri nýjungar, eins og að nú eru allar umsóknir rafrænar, efst í hægra horninu er hægt að fylgjast með loftgæðum víða um land og bráðlega koma ný og einföld línurit til að fylgjast náið með loftgæðamálunum. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er kominn með nýtt vefsvæði sem endurspeglar mikilvægi hans hjá stofnuninni. Á næstunni verða öll friðlýstu svæðin okkar sem hafa gestastofur með slíkar síður. Við getum hins vegar ekki sleppt því að segja frá nýju upplýsingasíðunum okkar um grænan lífstíl en þar má finna upplýsingar um hættuleg efni í leikföngum og snyrtivörum, að hverju þurfi að huga varðandi bílinn, heimilið og garðinn og svo auðvitað um grænt kynlíf - en umhverfisfræðunum er ekkert óviðkomandi!

Við erum rétt að byrja og von er á fullt af nýju efni á næstu vikum og mánuðum þannig að það er um að gera að skrá sig á Facebook, setja síðuna í RSS, setja hana í bókamerki eða jafnvel gera hana að upphafssíðu. Endilega sendið okkur ábendingar og hrós, t.d. með því að smella á flipann hérna vinstra megin (en þar fyrir ofan er hægt að deila þeirri síðu sem þú ert að skoða hverju sinni).

Njótum umhverfisins og stöndum vörð um það saman.