Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umsjónarnefnd um átaksverkefni um staðbundna útrýmingu minks í Eyjafirði og á Snæfellsnesi heldur ráðstefnu um niðurstöður verkefnisins og mótun framtíðarstefnu í minkaveiðum í dag, 14. mars. Hægt er að fylgjast með ráðstefnunni í beinni útsendingu á vefnum.

Í átaksverkefninu var veiðiálag aukið á árunum 2007-2010 og samhliða unnið að rannsóknum til þess að meta árangur af því og leita svara m.a. við þeirri spurningu hvort mögulegt væri að útrýma mink á landsvísu. Merkjanlega góður og skjótur árangur náðist í Eyjafirði. Hægar gekk að fækka mink á Snæfellsnesi, en þar hefur þó einnig orðið veruleg fækkun. Hér í töflunni sést veiði á svæðunum tveimur, mælt í fjölda dýra. Veiðiálag hélst jafnt á þessu tímabili en veiddum minkum fækkar, sem gefur sterklega til kynna að stofninn hafi minnkað mikið á tímabilinu.

minkaatak_2007-2010

Tilraunaverkefninu var hrundið af stað í mars 2006, þegar skipuð var umsjónarnefnd fyrir verkefnið. Um var að ræða þriggja ára verkefni, sem átti meðal annars að skoða möguleika á landsátaki í eyðingu minks. Ákveðið var að verja til verkefnisins 135 milljónum króna úr ríkissjóði á þremur árum en gert ráð fyrir að þau sveitarfélög sem hlut ættu að máli og aðrir hagsmunaaðilar legðu einnig fé til verkefnisins.

Umsjón veiðiátaksins var í höndum Umhverfisstofnunar, en Náttúrustofa Vesturlands hafði umsjón með rannsóknum samhliða átakinu. Veiðiátakið miðaði að því að reyna að útrýma mink á svæðunum tveimur eins og framast var unnt og var notast bæði við gildru- og hundaveiði í þeim tilgangi. Jafnframt sá Umhverfisstofnun um ítarlega skráningu á veiðunum. Ekki náðist að útrýma mink algerlega á svæðunum, enda ekki hægt að gefa sér það fyrirfram að slíkt væri hægt, en minkastofninum virðist hafa verið greitt þungt högg strax á fyrsta ári átaksins í Eyjafirði og stofninn þar hafa minnkað verulega. Hægar gekk á Snæfellsnesi, en veiðin hefur þó þróast í sömu átt. Verkefnið í heild hefur kostað um 140 milljónir króna á 4 árum; mestur hluti þess kostnaðar fór í framkvæmd veiðiátaksins með auknu veiðiálagi, bættri skráningu veiða og uppsetningu gagnagrunna, en um 26 milljónir fóru í rannsóknarverkefnið á vegum Náttúrustofu Vesturlands.

Ráðstefnan er liður í lokafasa átaksverkefnisins; hún er haldin til að kynna niðurstöður veiðiátaksins og vísindarannsókna tengdum því, en er einnig vettvangur umræðu um hvernig minkaveiðum verði best fyrir komið í framtíðinni. Skýrsla um vísindalegt mat á árangri átaksins er væntanleg í haust, en greint er frá bráðabirgðaniðurstöðum hennar á ráðstefnunni, auk ítarlegra upplýsinga um gang og árangur veiðiátaksins og niðurstaðna rannsókna sem tengdust átakinu.