Höfundur myndar: Þuríður Halldóra Aradóttir
Að gefnu tilefni vill Umhverfisstofnun koma eftirfarandi á framfæri varðandi samanburð á styrk ryks í útblæstri sorpbrennslustöðva og svifryksmengun í Reykjavík.
Nefnt hefur verið að áform séu uppi um að kröfur um styrk ryks í útblæstri frá sorpbrennslum verði minni en 10 milligrömm á rúmmetra í útblæstri að meðaltali á sólarhring. Til samanburðar hefur verið nefnt að styrkur ryks við götur í Reykjavík mælist stundum í kringum 600 milligrömm. Þetta er ekki rétt. Styrkur ryks í útblæstri í reykháfi er mældur í milligrömmum í rúmmetra en styrkur ryks í umhverfi er mældur í míkrógrömmum í rúmmetra. Munurinn á milligrömmum og míkrógrömmum er þúsundfaldur. Þannig hefur svifryk mælst 0,6 mg/m3 á slæmum dögum í Reykjavík en ekki 600 mg/m3.
Ástæða þess að styrkur í útblæstri er venjulega gefin upp í milligrömmum en ekki míkrógrömmum er hinn mikli styrkur sem er í útblæstri. Leyfilegur styrkur í útblæstri er ávallt miklu hærri heldur en leyfð mörk í umhverfinu því útblásturinn þynnist og dreifist eftir að hann kemur upp úr reykháfnum.
Til að setja útblástur frá sorpbrennslum í samhengi við styrki sem mælast í umhverfinu eru tekin hér nokkur dæmi. Til einföldunar er eingöngu notuð mælieiningin milligrömm í rúmmetra (mg/m3), bæði fyrir útblástursgildi sem mæld eru í reykháfi en einnig fyrir mælingar í umhverfinu t.d. styrk svifryks á götu í Reykjavík.
Leyfilegur styrkur ryks frá eldri sorpbrennslum er í dag 200 mg/m3 fyrir hvert 30 mínútna meðaltal. Umhverfisstofnun hefur lagt til að settar verði strangari kröfur og mörkin færð niður í 30 mg/m3 fyrir hvert 30 mínútna meðaltal en mörkin fyrir sólarhringsmeðaltal verði 10 mg/m3. Algengt er að rýmri mörk gildi fyrir skammtíma meðaltal en þrengri mörk fyrir lengri tímabil.
Útblástursmörk fyrir eldri sorpbrennslur (30 mín meðaltal) |
200 mg/m3 |
Útblástursmörk fyrir nýjar brennslur (30 mín meðaltal) |
30 mg/ m3 |
Útblástursmörk fyrir nýjar brennslur (sólarhringsmeðaltal) |
10 mg/ m3 |
Heilsuverndarmörk sólarhrings í andrúmslofti |
0,05 mg/m3 |
Heilsuverndarmörk ársmeðaltals í andrúmslofti |
0,02 mg/m3 |
Hæsta gildi sem mælst hefur á Íslandi (Vík í Mýrdal í gosinu í Eyjafjallajökli) |
13 mg/m3 |
Hæsta gildi á gamlárskvöld í Reykjavík |
2,0 mg/m3 |
Slæmir svifryksdagar í Reykjavík |
0,6 mg/m3 |
Dæmi um ársmeðaltal svifryks við Grensásveg |
0,022 mg/m3 |