Stök frétt

Í starfsleyfum Umhverfisstofnunar fyrir fiskeldisstöðvar hefur stofnunin farið fram á að gerðar séu vöktunaráætlanir. Vöktunaráætlanir af þessu tagi eiga að fjalla um vöktun á umhverfisáhrifum í nágrenni stöðvanna. Í eftirlitsferðum Umhverfisstofnunar með starfsemi fiskeldisstöðvanna hefur hins vegar borið á því að kröfur stofnunarinnar hafa ekki þótt nægilega vel útfærðar og að framkvæmd þessara krafna vefjist fyrir rekstraraðilum. Óskað hefur verið eftir því að stofnunin leiðbeini um gerð áætlana af þessu tagi.

Til að bregðast við þessum óskum hefur Umhverfisstofnun unnið drög að leiðbeiningum um gerð vöktunaráætlana fyrir fiskeldisstöðvar. Umhverfisstofnun óskar eftir ábendingum ef eitthvað mætti betur fara í leiðbeiningunum og er skilafrestur til 21. mars 2011. Áformað er að gefa leiðbeiningarnar formlega út í framhaldi af því. Tekið skal fram að ekki er um að ræða skuldbindandi reglur. Endanleg áætlun hlýtur að taka mið af aðstæðum á hverjum stað og eðli og umfangi eldisins. Umhverfisstofnun hefur með höndum útgáfu starfsleyfa og framkvæmd eftirlits fyrir fiskeldi sem er yfir vissri stærð.

Athugasemdir skal senda á Umhverfisstofnun, eða í pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108, Reykjavík.