Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur sent Vestmannaeyjabæ bréf þar sem áform stofnunarinnar um að svipta sorpbrennslu þeirra starfsleyfi á grundvelli brota á því voru kynnt, en stöðin hefur ítrekað farið yfir þau mörk sem gefin eru upp fyrir ryk í útblæstri.

Sorpbrennslustöðin fékk starfsleyfi árið 2004 þar sem tilgreind þau mörk sem eru sett til þess að gæta að heilsu manna og tryggja umhverfisgæði. Í mars 2010 sendi Umhverfisstofnun Vestmannaeyjabæ áform um áminningu þar sem losun á ryki í útblásturslofti hefur ítrekað verið yfir mörkum og þess krafist úrbætur yrðu gerðar, innan ákveðins frests. Í maí 2010 var formleg áminning send og á sama tíma krafðist stofnunin að nýjar mælingar yrðu gerðar. Niðurstöður þeirra mælinga sýna losun ryks frá stöðinni var yfir mörkum. Því áformar stofnunin að svipta Bæjarveitur Vestmanneyja starfsleyfi með vísan í 6. mgr. 38. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003.

Umhverfisstofnun hefur veitt Vestmannaeyjabæ frest til 23. mars til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.