Stök frétt

Dregið verður úr hreindýraveiðileyfum á laugardaginn 26.febrúar kl 14:00 í húsakynnum Þekkingarnets Austurlands. Hægt verður að fylgjast með útdrættinum á veraldarvefnum og má nálgast slóðina hér á vef Umhverfisstofnunar þegar þar að kemur.

Útdráttur hreindýraleyfa verður með breyttu sniði í ár frá fyrri árum og er það tilkomið vegna úrskurðar Persónuverndar frá 7. desember 2010. Dregið verður með sama hætti í beinni útsendingu en í stað þess að nöfn þeirra sem fengu úthlutun birtist verður eingöngu notast við veiðikortanúmer. Veiðikortanúmerið helst óbreytt milli ára og er hægt að finna það á veiðikortinu. Umsækjendur hreindýraveiðileyfa hafa fengið tölvupóst með veiðikortnúmeri sínu.

Þeir umsækjendur sem fá dýr þurfa að greiða staðfestingargjald í síðasta lagi 31. mars 2011 hyggist þeir taka leyfið. Staðfestingargjald er fjórðungur af verði leyfisins og fæst ekki endurgreitt. Þeir umsækjendur sem fá leyfi úthlutað en hyggjast ekki nýta leyfið eru hvattir til að tilkynna þá ákvörðun sem fyrst til Umhverfisstofnunar.