Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Þann 10. febrúar sl. undirritaði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra friðlýsingu búsvæðis tjarnaklukku á Hálsum við Djúpavog í samræmi við Náttúruverndaráætlun 2009-13. Friðlýsingin var gerð með samþykki sveitarstjórnar Djúpavogshrepps og landeigenda jarðarinnar Strýtu við Berufjörð, og varð Djúpavogshreppur þar með fyrst íslenskra sveitarfélaga til að samþykkja friðlýsingu svæðis til verndar smádýralífi. Við sama tækifæri gerðu Umhverfisstofnun og Djúpavogshreppur með sér samning um umsjón sveitarfélagsins með friðlýsta svæðinu.

Fram kom í ávarpi Andrésar Skúlasonar oddvita við friðlýsinguna að í aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020 er sett fram viðamikil stefna um verndun náttúru. Í tengslum við skipulagsgerðina vann Páll Jakob Líndal doktorsnemi í umhverfissálfræði rannsókn sem sýnir að mikill meirihluti þeirra ferðamanna sem koma til Djúpavogs telur að þeir muni frekar sækja svæðið heim aftur ef fyrirætlanir um verndun náttúru ná fram að ganga.

Tjarnaklukka er ein fárra tegunda vatnabjallna sem finnast á Íslandi og hefur hvergi orðið vart á landinu nema á Hálsum ofan við Djúpavog. Hið friðlýsta svæði er yst á nesinu sem aðskilur Hamarsfjörð og Berufjörð og nær í 160 metra hæð yfir sjó. Í tjörnunum á Hálsum er að finna allar þekktar tegundir vatnaklukkna landsins, en þar er fjölbreytt og gróskumikið lífríki.

Til að tryggja verndun búsvæðisins á Hálsum er m.a. ætlunin að gefa út upplýsinga- og fræðsluefni sem varpar ljósi á mikilvægi verndunar hryggleysingja eins og tjarnaklukku í íslenskri náttúru.