Stök frétt

Á alþjóðlega votlendisdaginn þann 2. febrúar sl. undirritaði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra friðlýsingu búsvæðis fyrir fugla í Andakíl í Borgarfirði. Sveitarfélagið Borgarbyggð, Landbúnaðarháskóli Íslands og landeigendur 13 jarða í Andakíl - Hvítárvalla, Grímarsstaða, Heggsstaða, Báreksstaða, Vatnshamra, Ausu, Neðri-Hrepps, Innri-Skeljabrekku, Ytri-Skeljabrekku, Árdals, Grjóteyrar, Grjóteyrartungu og Skógarkots - standa að friðlýsingunni. Mikil og góð samvinna var milli Umhverfisstofnunar og allra þessara aðila við undirbúning friðlýsingarinnar.

Um er að ræða stækkun svæðis sem var friðlýst árið 2002. Þá var öll Hvanneyrarjörðin friðlýst sem búsvæði blesgæsar, alls 1.744 hektarar. Eftir stækkun verður friðlýsta svæðið 3.086 hektarar. Á svæðinu er fjölbreytileiki votlendis mikill og fjölmargar tegundir fugla nýta sér svæðið. Svæðið er í farleið fugla eins og blesgæsar og fleiri tegunda sem hafa viðdvöl á leið sinni til og frá varpstöðvum. Talið er að um 10 % grænlenska blesgæsastofnsins hafi viðdvöl á verndarsvæðinu vor og haust.

Stækkunin er mikilvægt skref í verndun og endurheimt votlendis hér á landi með tilliti til verndunar fugla og bindingar gróðurhúsalofttegunda. Á verndarsvæðinu mun hefðbundin nýting haldast svo sem verið hefur. Umhverfisstofnun hefur gert samkomulag við Votlendissetur Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri um umsjón með svæðinu. Unnið er að tilnefningu friðlýsta svæðisins í Andakíl á lista Ramsarsamningsins um vernd votlendis.