Stök frétt

Díoxín er þrávirkt lífrænt efni sem getur valdið heilsutjóni í dýrum og mönnum. Rannsóknir benda til þess að áhrifin séu minni í mönnum en tilraunadýrum. Rúm 90% af því díoxíni sem maðurinn fær í sig kemur í gegnum fæðu, sérstaklega úr feitum mat, s.s. mjólkurvörum, kjöt- og fiskmeti. Talið er að tæp 2% af díoxíni í mönnum megi rekja til innöndunar.

Losun díoxíns á Íslandi er minni en hjá nágrannaþjóðum okkar. Á síðastliðnum 20 árum hefur dregið hratt úr losun díoxíns í heiminum og minnkaði losun í ESB-27 ríkjunum úr 11 kg árið 1990 niður í rúm 2 kg árið 2008. Ísland losaði um 11 grömm árið 1990 en um 4 g árið 2008. Finnland losar lítið miðað við flestar Evrópuþjóðir, eða aðeins rúmlega 15 g á ári, álíka og Írland. Noregur losaði um 20 g á árinu 2008 en Svíþjóð rekur lestina meðal Norðurlandaþjóða með rúm 35 g á ári. Bretland losaði um 200 g árið 2008.

Umhverfisstofnun tók saman skýrslu árið 2010 um losun ýmissa þrávirkra lífrænna efna þar sem m.a. kemur fram að dregið hefur úr heildarlosun díoxíns á Íslandi um 66% frá 1990 til ársins 2008 og um 82% í sorpbrennslu og úrgangsmeðhöndlun. Heildarlosun var 11,3 g I-TEQ (díoxinígilid) árið 1990 en 3,9 g I-TEQ árið 2008. Á árinu 2008 var losun frá áramótabrennum 1,8 g I-TEQ og frá sorpbrennslum og orkuiðnaði 0,6 g I-TEQ af díoxín. Ástæðan fyrir því að heildarlosun hefur dregist saman er fyrst og fremst að mörgum opnum og eldri sorpbrennslum hefur verið lokað og reglur um sorpbrennslur hertar frá árinu 2003.

Losunarmörk - Umhverfismörk

Díoxín hefur enga hagnýta eiginleika eins og sum eiturefni og er því hvergi notað og er ekki framleitt í sérstökum tilgangi, en verður til við ýmsar mannlegar athafnir. s.s. sorpbrennslu, ýmsan iðnað, áramótabrennur, sinubrunar o.fl. Einungis hafa verið sett losunarmörk á díoxín fyrir sorpbrennslustöðvar. Losunarmörk þar eru 0.1 ng/m 3 fyrir nýjar sorpbrennslustöðvar og fer mælingin fram í reykháfi stöðvanna. Losunarmörkin eru miðuð við losun pr. rúmmetra og heildarlosun háð magni og tegund úrgangs sem er brenndur og loftflæði stöðvarinnar. Íslendingar brenna minna af úrgangi en aðrar þjóðir og losa þar af leiðandi minna magn af díoxíni út í umhverfið vegna sorpbrennslu. Viðmiðunarmörk fyrir losun díoxíns eru losunarmörk en hvorki umhverfismörk né heilsuverndarmörk.

Stofnunin þekkir ekki til þess að sett hafi verið umhverfismörk fyrir díoxín í umhverfinu heldur er almennt miðað við hve mikið menn fá í sig í gegnum fæðuna og eftirlit haft með magni díoxíns í matvælum. Á heimasíðu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar eru sett fram drög að mörkum varðandi inntöku og eru þau 70 pg á hvert kg líkamsþyngdar á mánuði. Enda er talið að rúm 90% af því díoxíni sem maðurinn fær í sig komi í gegnum fæðu. Engin mörk eru um heildarlosun díoxíns í hverju ríki fyrir sig eða frá einstökum sorpbrennslum.

Losunarmörk eru mörk fyrir leyfilega losun frá atvinnurekstri sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Mörkin geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.

Umhverfismörk er leyfilegt hámarsgildi mengunar í tilteknum viðtaka s.s. andrúmslofti, byggt á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess (s.s. heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk.) Dæmi: Mörk varðandi svifryk og brennisteinsvetni.

Losun díoxíns – eldri sorpbrennslur

Díoxínmæling

Díxoínmæling 2007 (ng/m3)

Metin árslosun 2008 miðað við viðmiðunarstaðla (g I-TEQ)

Vestmannaeyjar

8,4

0,338

Skutulsfjörður

2,1

0,087

Kirkjubæjarklaustur

9,5

0,020

Svínafell

-

0,020

Losun díoxíns - nýjar sorpbrennslur

Díoxínmæling

Díxoínmæling 2009 (ng/m3 )

Metin árslosun 2008 miðað við viðmiðunarstaðla (g I-TEQ)

Húsavík

0,37

0,121

Kalka - Helguvík

0,05

0,002

Sementsverksmiðjan - Akranesi (gjallofni)

0,044

0,006

Mat á heildarlosun díoxíns árið 2008

Mat á losun díoxíns á Íslandi 2008

Brennsla sorps frá 2007-2009

Brennla sorps (tonn)
Funi Vestm. Klaustur Svínafell Húsavik
2007 3400 4000 - 100 3400
2008 2900 3400 200 100 4000
2009 2600 2100 200 100 3400


Sorpbrennslurnar brenna mismiklu magni af sorpi á ári sem skýrir muninn á heildarlosun milli stöðvanna. Uppreiknaðar tölur taka mið af flokkunarreglum loftslagssamningsins og samningsins um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa (g I-TEQ).

Mælingar hjá sorpbrennslustöðinni á Húsavík árið 2009, sem er ný sorpbrennsla, sýnir að losun á díoxíni þar var yfir mörkum. Við síðustu mælingu mældist losun díoxíns 0,37 ng/m 3 en leyfileg mörk eru 0,1 ng/m 3 . Umhverfisstofnun sendi í september 2010 kröfu um tímasetta áætlun um úrbætur. Svar barst 6. janúar 2011. Við síðustu mælingu hjá sorpbrennslustöðinni í Helguvík árið 2009 mældist losun díoxíns innan marka eða 0,05 ng/m 3 og sömuleiðis í gjallofni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi 0,044 ng/m 3 .

Árið 2003 voru innleiddar hertar reglur um sorpbrennslur í gegnum EES-samninginn en undanþága fengin af hálfu íslenskra stjórnvalda fyrir eldri sorpbrennslur sem þá voru starfandi. Eldri sorpbrennslum var veitt undanþága þannig að ekki voru sett mörk fyrir losun díoxíns frá þeim. Í undanþágunum var sett skilyrði um að eldri sorpbrennslur skyldu mæla díoxín einu sinni og var það gert 2007 og niðurstöður lágu fyrir 2008. Þar kom í ljós að díoxín mældist verulega yfir þeim mörkum sem gilda fyrir nýjar sorpbrennslur sem tóku til starfa eftir 2003. Við því var að búast enda eldri sorpbrennslur ekki með þann hreinsibúnað sem þarf til að draga úr losun díoxíns. Kveðið var á um í undanþáguákvæðunum að þau skyldi endurskoða að fimm árum liðnum og sendi Umhverfisstofnun umhverfisráðuneytinu árið 2008 upplýsingar um þær mælingar sem gerðar voru 2007 og tilkynnti ráðuneytinu að stofnunin mundi upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA um þessar mæliniðurstöður.

Umhverfisstofnun sendi jafnframt í byrjun árs 2009 samantektarbréf með skýrslum vegna eftirlits 2008 með eldri sorpbrennslum þar sem sérstaklega er minnt á niðurstöður dioxín mælinga. Afrit þessara bréfa eru send viðkomandi heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga á staðnum.

Viðbrögð og næstu skref

Umhverfisstofnun fundaði 4. janúar með sóttvarnarlækni, Matvælastofnun, Vinnueftirlitinu og Kristínu Ólafsdóttur líf- og eiturefnafræðingi frá HÍ vegna díoxínmælinga í mjólk í búi í nágrenni Sorpbrennslunar Funa á Ísafirði. Niðurstaða þess fundar var að fyrsta skref til að kanna umfang og áhrif díoxínmengunar væri að mæla díoxínmagn í búfjárafurðum og fóðri í námunda við sorpbrennsluna áður en gripið yrði til frekari aðgerða. Matvælastofnun vinnur að slíkum mælingum en vænta má niðurstaðna úr þeim í lok janúar.

Fram kom á fundinum að ekki hefur orðið vart einkenna af völdum díoxíns eða annarra eitrana meðal íbúa á Ísafirði. Engu að síður var það mat fundarins að mikilvægt væri að fá sem gleggstar upplýsingar um hugsanlega díoxínmengun á svæðinu með því að mæla efnið í afurðum dýra og fóðri áður en gripið yrði til frekari aðgerða.

Umhverfisstofnun fundaði með umhverfisráðuneytinu 4. janúar og lagði þar fram tillögu um að eldri sorpbrennslustöðvar fái tvö ár til þess að uppfylla skilyrði sem gilda fyrir nýjar sorpbrennslur. Verði farið að tillögu stofnunarinnar hefur það í för með sér að m.a. verða sett losunarmörk fyrir díoxín og kröfur um auknar mælingar. Starfandi sorpbrennslum í Evrópusambandinu var veittur fimm ára aðlögunarfrestur við gildistöku tilskipunar um sorpbrennslum.

Umhverfisstofnun fundaði með rekstraraðilum eldri sorpbrennslna sem starfa í Vestmannaeyjum, á Kirkjubæjarklaustri og á Svínafelli þann 5. nóvember. Niðurstaða fundarins var að gerðar verða nýjar mælingar á losun díoxíns frá stöðvunum nú í janúar í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri en á Svínafelli í maí þegar stöðin verður komin í fullan rekstur. Jafnframt verður unnin áætlun um frekari mælingar sem munu gefa betri mynd af losuninni. Mælingar þessar verða kynntar opinberlega þegar þær liggja fyrir. Á fundinum kom fram að í Vestmannaeyjum er stefnt að frekari flokkun á úrgangi sem vonast er til að dragi úr brennslu og minnki mengun. Til slíkra aðgerða hefur nú þegar verið gripið á Kirkjubæjarklaustri. Umhverfisráðuneytið kynnti áform sín um að óska eftir athugasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga, framangreindra soprbrennslna og sveitarfélaga viðkomandi sorpbrennslna um tillögu Umhverfisstofnunar um að þær uppfylli sömu skilyrði og nýjar sorpbrennslur innan tveggja ára. Eftir fundinn fékk Umhverfisstofnun upplýsingar um að Svínafell ætli einnig að gera mælingar við fyrsta tækifæri.

Umhverfisstofnun hefur unnið að því að undanförnu að auka upplýsingagjöf til almennings í samræmi við nýja upplýsingastefnu. M.a. verða allar eftirlitsskýrslur birtar opinberlega. Uppfærsla á vefsvæði stofnunarinnar stendur yfir og verður þar fleiri upplýsingum miðlað en áður og með aðgengilegri hætti fyrir almenning. Má þar nefna upplýsingar um hættuleg efni í vörum sem og mengun frá iðnaði. Jafnframt er stofnunin að innleiða gæðakerfi skv. ISO stöðlum bæði 14001 sem er umhverfisstaðall og 9001 sem stjórnunarstaðall. Stofnunin stefnir á vottun um mitt þetta ár.

Sorpbrennslan Funi í Skutulsfirði

Umhverfisstofnun hóf þvingunaraðgerðir á hendur sorpbrennslunni Funa í Skutulsfirði í byrjun árs 2010 þar sem losun mengandi efna, s.s. ryks og þungmálma, voru skv. mælingum 2009 yfir þeim mörkum sem um getur í starfsleyfinu. Mælingar hjá sorpbrennslunni árin 2005 og 2007 sýndu að losun var innan marka starfsleyfisins. Ferill málsins hvað varðar Funa af hálfu Umhverfisstofnunar á árinu 2010:

  • Mæliniðurstöður sem bárust Umhverfisstofnun í byrjun árs 2010 sýndu að losun efna, s.s ryks og þungmálma, var yfir leyfilegum mörkum skv. starfsleyfi.
  • Funa-sorpbrennslu var sent bréf í mars um áformaða áminningu og krafa gerð um úrbætur.
  • Ísafjarðarbær sendi bréf í mars þar sem tilkynnt var að ekki yrði farið út í að leggja fjármagn í endurbætur á stöðinni í ljósi þess að fara ætti í útboð með sorpmál bæjarins.
  • Umhverfisstofnun veitir Funa-sorpbrennslu áminningu í maí og gaf frest til úrbóta til 1. september 2010. Jafnframt var farið fram á að Funi-sorpbrennsla léti framkvæma mælingar í byrjun september.
  • Umhverfisstofnun sendir bréf 8. september þar sem tilkynnt var að stofnunin hygðist panta og láta framkvæma mælingar á kostnað Funa-sorpbrennslu, þar sem það hafði ekki verið gert að frumkvæði sorpbrennslunnar eins og farið hafði verið fram á. Mælingar fóru fram 3. desember en þær drógust vegna þess að brennsla lá niðri um tíma og tæknibúnaður hjá Nýsköpunarmiðstöð var ekki aðgengilegur.
  • Umhverfisstofnun sendi Funa-sorpbrennslu bréf 16. desember þar sem tilkynnt er um áformaða sviptingu starfsleyfis komi í ljós að losun efna sé enn yfir leyfilegum mörkum í mælingunni sem framkvæmd var 3. desember. Niðurstöður úr þeim mælingum eru væntanlegar í janúar.
  • Fram hefur komið opinberlega að rekstri sorpbrennslunnar hefur verið hætt.