Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Fundur með sorpbrennslum

Umhverfisstofnun hélt fund í morgun með rekstraraðilum eldri sorpbrennslna sem starfa í Vestmannaeyjum, á Kirkjubæjarklaustri og á Svínafelli. Niðurstaða fundarins var að gerðar verða nýjar mælingar á losun díoxíns frá stöðvunum nú í janúar í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri en á Svínafelli í maí þegar stöðin verður komin í fullan rekstur. Jafnframt verður unnin áætlun um frekari mælingar sem munu gefa betri mynd af losuninni. Mælingar þessar verða kynntar opinberlega þegar þær liggja fyrir. Á fundinum kom fram að í Vestmannaeyjum er stefnt að frekari flokkun á úrgangi sem vonast er til að dragi úr brennslu og minnki mengun. Til slíkra aðgerða hefur nú þegar verið gripið á Kirkjubæjarklaustri. Umhverfisráðuneytið kynnti áform sín um að óska eftir athugasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga, framangreindra soprbrennslna og sveitarfélaga viðkomandi sorpbrennslna um tillögu Umhverfisstofnunar um að þær uppfylli sömu skilyrði og nýjar sorpbrennslur innan tveggja ára.

Umhverfisstofnun vill einnig greina frá því að mælingar á sorpbrennslustöðinni á Húsavík sem er ný sorpbrennsla sýna að losun á díoxín þar var yfir mörkum. Við síðustu mælingu mældist losun díoxíns 0,37 ng/m3 en leyfileg mörk eru 0,1 ng/m3. Umhverfisstofnun sendi í september 2010 kröfu um tímasetta áætlun um úrbætur. Svar hefur ekki borist og er stofnunin að fylgja eftir þeim kröfum.

Við síðustu mælingu hjá á sorpbrennslustöðinni í Helguvík mældist losun díoxíns innan marka eða 0,05 ng/m3 og sömuleiðis í gjallofni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi 0,044 ng/m3.

Díoxín á Íslandi

Díoxín er þrávirkt lífrænt efni sem getur valdið heilsutjóni í dýrum og mönnum. Rannsóknir benda til þess að áhrifin séu minni í mönnum en tilraunadýrum. Rúm 90% af því díoxíni sem maðurinn fær í sig kemur í gegnum fæðu. Sérstaklega í gegnum feitan mat, s.s. mjólkurvörur, kjöt- og fiskmeti. Talið er að tæp 2% af díoxíni í mönnum megi rekja til innöndunar.

Losun díoxíns á Íslandi er lítil í alþjóðlegum samanburði ríkja og landsvæða. Á síðastliðnum 20 árum hefur dregið hratt úr losun díoxíns í heiminum og minnkaði losun í ESB-27 ríkjunum úr 11 kg árið 1990 niður í rúm 2 kg árið 2008. Ísland losaði um 11 grömm árið 1990 en um 4 grömm árið 2008. Finnar losa lítið miðað við flestar Evrópuþjóðir eða aðeins rúmlega 15 g á ári, álíka og Írar. Norðmenn losa um 20 g á ári 2008 en Svíar reka lestina meðal Norðurlandaþjóða með rúm 35 g á ári. Bretland losaði um 200 g árið 2008. Á vefsvæði Umhverfisstofnunar Evrópu má skoða samanburð á mengun milli landa.