Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Þrjár eldri sorpbrennslur eru starfandi sem hafa starfsleyfi skv. undanþágu frá reglum (2003) þar sem meðal annars eru sett mörk um díoxín: Á Kirkjubæjarklaustri, í Vestmannaeyjum og á Svínafelli. Sorpbrennslunni Funa í Skutulsfirði var lokað um áramót. Umhverfisstofnun hefur boðað rekstraraðila þessara starfandi sorpbrennslna á fund miðvikudaginn 5. janúar til þess að ræða stöðuna og framhaldið.

Mælingar voru gerðar á Kirkjubæjarklaustri, í Vestmannaeyjum og í Skutulsfirði árið 2007 sem sýndu að díoxín mældist yfir mörkum. Díoxín hefur ekki verið mælt á Svínafelli.

Losun díoxíns – eldri sorpbrennslur

Díoxínmæling

Díxoínmæling 2007 (ng/m3)

Metin árslosun 2008 miðað við viðmiðunarstaðla (g I-TEQ)

Vestmannaeyjar

8,4

0,338

Skutulsfjörður

2,1

0,087

Kirkjubæjarklaustur

9,5

0,020

Svínafell

-

0,020

Sorpbrennslurnar brenna mismiklu magni af sorpi á ári sem skýrir muninn á heildarlosun milli stöðvanna. Uppreiknaðar tölur taka mið af flokkunarreglum loftslagssamningsins og samningsins um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa (g I-TEQ). Aðeins er til ein mæling fyrir þessar stöðvar og ekki hægt að uppreikna ársgildi á grundvelli einnar mælingar, það þyrfti fleiri til upp á áreiðanleika. Viðmiðunarmörk fyrir sorpbrennslur sem starfa á grundvelli EES-reglna frá 2003 eru 0,1 ng/m3 en þessar sorpbrennslur eins og áður getur starfa á undanþágu frá þeim reglum.

Umhverfisstofnun tók saman skýrslu árið 2010 um losun ýmissa þrávirkra lífrænna efna þar sem m.a. kemur fram að dregið hefur úr heildarlosun díoxíns á Íslandi um 66% frá 1990 til ársins 2008 og um 82% í sorpbrennslu og úrgangsmeðhöndlun. Heildarlosun var 11,3 g I-TEQ árið 1990 en 3,9 g I-TEQ árið 2008. Á árinu 2008 var losun frá áramótabrennum 1,8 g I-TEQ og frá sorpbrennslum og orkuiðnaði 0,6 g I-TEQ af díoxín. Ástæðan fyrir því að heildarlosun hefur dregist saman er fyrst og fremst að mörgum opnum og eldri sorpbrennslum hefur verið lokað og hertari reglum um sorpbrennslur frá árinu 2003.

Sorpbrennslan Funi í Skutulsfirði

Umhverfisstofnun hóf þvingunaraðgerðir á hendur sorpbrennslunni Funa í Skutulsfirði í byrjun árs 2010 þar sem losun mengandi efna, s.s. ryks og þungmálma, voru skv. mælingum 2009 yfir þeim mörkum sem um getur í starfsleyfinu. Mælingar hjá sorpbrennslunni árin 2005 og 2007 sýndu að losun var innan marka starfsleyfisins. Ferill málsins hvað varðar Funa af hálfu Umhverfisstofnunar á árinu 2010:

  • Mælingar Umhverfisstofnunar í byrjun árs 2010 sýndu að losun efna, s.s ryks og þungmálma, var yfir leyfilegum mörkum skv. starfsleyfi.
  • Funa-sorpbrennslu var sent bréf í mars um áformaða áminningu og krafa gerð um úrbætur.
  • Ísafjarðarbær sendi bréf í mars þar sem tilkynnt var að ekki yrði farið út í að leggja fjármagn í endurbætur á stöðinni í ljósi þess að fara ætti í útboð með sorpmál bæjarins.
  • Umhverfisstofnun veitir Funa-sorpbrennslu áminningu í maí og gaf frest til úrbóta til 1. september 2010. Jafnframt var farið fram á að Funi-sorpbrennsla léti framkvæma mælingar í byrjun september.
  • Umhverfisstofnun sendir bréf 8. september þar tilkynnt var að stofnunin hygðist panta og láta framkvæma mælingar á kostnað Funa-sorpbrennslu, þar sem það hafði ekki verið gert að frumkvæði sorpbrennslunnar eins og farið hafði verið fram á. Mælingar fóru fram 3. desember en þær drógust vegna þess að brennsla lá niðri um tíma og tæknibúnaður hjá Nýsköpunarmiðstöð var ekki aðgengilegur.
  • Umhverfisstofnun sendi Funa-sorpbrennslu bréf 16. desember þar sem tilkynnt er um áformaða sviptingu starfsleyfis komi í ljós að losun efna sé enn yfir leyfilegum mörkum í mælingunni sem framkvæmd var 3. desember. Niðurstöður úr þeim mælingum eru væntanlegar í janúar.
  • Fram hefur komið opinberlega að rekstri sorpbrennslunnar hefur verið hætt.

Næstu skref

Umhverfisstofnun fundaði í morgun (4. janúar) með sóttvarnarlækni, Matvælastofnun, Vinnueftirlitinu og Kristínu Ólafsdóttur líf- og eiturefnafræðingi frá HÍ vegna málsins. Niðurstaða þess fundar var að fyrsta skref til að kanna umfang og áhrif díoxínmengunar væri að mæla díoxínmagn í búfjárafurðum og fóðri í námunda við sorpbrennsluna áður en gripið yrði til frekari aðgerða. Matvælastofnun vinnur að slíkum mælingum en vænta má niðurstaðna úr þeim í lok janúar. Samkvæmt upplýsingum lækna frá Ísafirði hefur ekki orðið vart neinna einkenna hjá fólki sem rekja má til þessara mengunar.

Umhverfisstofnun fundaði með umhverfisráðuneytinu í dag og lagði þar fram tillögu um að eldri sorpbrennslustöðvar fái tvö ár til þess að uppfylla skilyrði sem gilda fyrir nýjar sorpbrennslur þar sem m.a. er tekið mið af losun díoxíns. Umhverfisstofnun mun hins vegar fylgja eftir því að eldri sorpbrennslur uppfylli skilyrði gildandi starfsleyfa.

Umhverfisstofnun hefur unnið að því að undanförnu að auka upplýsingagjöf til almennings í samræmi við nýja upplýsingastefnu. M.a. verða allar eftirlitsskýrslur birtar opinberlega. Uppfærsla á vefsvæði stofnunarinnar stendur yfir og verður þar fleiri upplýsingum miðlað en áður sem og með aðgengilegri hætti fyrir almenning. Má þar nefna upplýsingar um hættuleg efni í vörum sem og mengun frá iðnaði.

Undanþága frá EES tilskipun

Árið 2003 voru innleiddar hertar reglur um sorpbrennslur í gegnum EES-samninginn en undanþága fengin af hálfu íslenskra stjórnvalda fyrir eldri sorpbrennslur sem þá voru starfandi. Meðal þess sem eldri sorpbrennslum var veitt undanþága fyrir var losun díoxíns. Í undanþágunum var sett skilyrði um að díoxín skyldi mælt hjá eldri sorpbrennslum og var það gert 2007 og niðurstöður lágu fyrir 2008. Þar kom í ljós að díoxín mældist verulega yfir þeim mörkum sem gilda fyrir nýjar sorpbrennslur sem tóku til starfa eftir 2003. Við því var að búast enda eldri sorpbrennslur ekki með þann hreinsibúnað sem þarf til að draga úr losun díoxíns. Kveðið var á um í undanþáguákvæðunum að þau skyldi endurskoða að fimm árum liðnum og sendi Umhverfisstofnun umhverfisráðuneytinu árið 2008 upplýsingar um þær mælingar sem gerðar voru 2007 og annað er varðaði endurskoðun á undanþágunni.

Upplýsingar um díoxín

Aðal geymslustaður díoxína og fúrana í umhverfinu er jarðvegur (set). Þaðan berast þau síðan inn í fæðukeðjuna og með fæðunni í manninum. Talið er að um að yfir 90%  af því díoxíni og fúrani sem maðurinn fær í sig berist með fæðunni. Efnin geta borist í matvæli úr umhverfinu. Þau hafa ekki áhrif á heilsu okkar samstundis, en geta valdið vandamálum ef þau berast í líkamann í talsverðu magni yfir langt tímabil. Mest fær fólk úr matvælum sem innihalda mikið af dýrafitu eins og mjólk, kjöt, fisk og egg (og matvæli unnin úr þeim). Þó eru þessi efni í snefilmagni í öllum matvælum.

Nánari upplýsingar um díoxín