Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Við mælingar á efnainnihaldi flugelda á vegum yfirvalda í Danmörku kom í ljós að hluti þeirra innihaldi þrávirka efnið hexaklórbensen sem hefur um langt skeið verið bannað vegna þeirra alvarlegu áhrifa sem það hefur á umhverfið og heilsu manna. Hér á landi hafa engar slíkar rannsóknir verið gerðar og því liggur ekki fyrir hvort flugeldarnir og skotterturnar sem eru á markaði hér innihaldi hexaklórbensen. Mörg önnur heilsuskaðleg efni geta verið í flugeldum eða sem geta myndast eftir að kveikt er í þeim. Það er á ábyrgð innflytjenda að tryggja að flugeldar innihaldi ekki efni sem eru bönnuð. Á næsta ári er áætlað að hafa samráð við yfirvöld í öðrum Evrópuríkjum um hvernig megi koma í veg fyrir að flugeldar með bönnuðum efnum rati á markað.

Umhverfisstofnun mun kanna hvort slík efni sé að finna í flugeldum hérlendis og einnig koma upplýsingum til birgja um hvernig megi ganga úr skugga um að hættuleg efni sé ekki að finna í flugeldum.

Hexaklórbensen er þrávirkt efni sem safnast upp í umhverfinu og í lífverum. Það brotnar niður á afar löngum tíma og getur í millitíðinni borist langar leiðir í lofti, vötnum eða sjó og hefur efnið mælst í umhverfinu fjarri mögulegum uppsprettum. Hexaklórbensen er talið geta valdið alvarlegum heilsuskaða eins og krabbameini og skaðað starfsemi lifrar og nýrna svo eitthvað sé nefnt. Hexaklórbensen var áður fyrr notað sem varnarefni og í ýmis konar iðnaði en nánast öll notkun þess hefur nú verið bönnuð með alþjóðlegum aðgerðum á borð Stokkhólmssamningi um bann við framleiðslu, notkun og losun þrávirkra lífrænna efna.

Nánar um hexaklórbensen og þrávirk lífræn efni