Stök frétt

Umhverfisráðherra gaf nýlega út nýja reglugerð um flúorgös sem aðallega eru notuð sem kælimiðlar á kæli-og frystibúnað og fyrir varmadælukerfi. Reglugerðin er nr. 834/2010 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir. Reglugerðin er hluti af EES samningnum og er sett til að innleiða tíu reglugerðir, sem birtast óbreyttar í viðaukum með reglugerðinni. Markmið reglugerðarinnar er að draga úr losun tiltekinna flúoraðra gróðurhúsalofttegunda og stuðla að öruggri meðhöndlun þeirra með tilliti til verndunar umhverfisins. Reglugerðin gildir um takmörkun á losun, notkun og meðhöndlun flúroraðra gróðurhúsalofttegunda ásamt lekaleit, skráningu, setningu þeirra á markað og merkingar. Hún gildir einnig um menntun og hæfni starfsmanna sem meðhöndla flúroraðar gróðurhúsalofttegundir ásamt kröfum um þjálfun og vottun starfsmanna og fyrirtækja.

Þessar nýju reglur snerta starfsumhverfi starfsmanna í kæli- og frystiiðnaði, bifvélavirkja sem starfa við að þjónusta bíla með loftkælingum, rafvirkja sem starfa við háspennivirki og þjónusta spenna sem innihalda SF6 (Brennisteinshexaflúoríð) sem neistavara. Bæði fyrirtæki og starfsmenn þeirra eiga að sækja sér menntun og faggildingu í kjölfarið. Starfsmenn sem hlotið hafa viðurkenningu og vottun faggilds vottunaraðila munu fá starfsréttindi metin jafngild í öllum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins.

Reglugerðin kemur í stað eldri reglugerðar um gróðurhúsalofttegundir, og féll reglugerð nr. 230/1998 um ákveðnar lofttegundir sem stuðlað geta að gróðurhúsaáhrifum úr gildi við gildistöku hennar 15. október síðast liðinn.

Nánari upplýsingar um reglugerðina og framkvæmd hennar hjá Umhverfisstofnun í síma 591-2000.