Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Mælingar á kúamjólk á einu lögbýli í Skutulsfirði leiddu í ljós að þrávirk efni voru yfir viðmiðunarmörkum sem hugsanlega má rekja til sorpbrennslustöðvarinnar í Skutulsfirði. Umhverfisstofnun hefur til skoðunar að svipta Funa-sorpbrennslu starfsleyfi og loka starfseminni vegna ófullnægjandi mengunarvarna sem hugsanlega hafa skaðleg áhrif á umhverfið og heilsu manna á svæðinu. Mælingar fyrr á árinu leiddu í ljós losun efna yfir leyfilegum mörkum og í kjölfarið var farið fram á úrbætur. Ekki hefur verið orðið við þeim kröfum og voru aftur tekin sýni 3. desember síðastliðinn. Líklegt má þykja að niðurstöður úr þeim mælingum sýni að losun efna sé enn yfir leyfilegum mörkum. Reynist sú raunin mun stofnunin gefa Funa-sorpbrennslu lokafrest til þess að koma að sjónarmiðum sínum.

Ferill málsins hjá Umhverfisstofnun

Mælingar Umhverfisstofnunar í byrjun árs sýndu að losun efna var yfir leyfilegum mörkum skv. starfsleyfi.

Funa-sorpbrennslu var sent bréf í mars um áformaða áminningu og krafa gerð um úrbætur.

Ísafjarðarbær sendi bréf í mars þar sem tilkynnt var að ekki yrði farið út í að leggja fjármagn í endurbætur á stöðunni í ljósi þess að fara ætti í útboð með sorpmál bæjarins.

Umhverfisstofnun veitir Funa-sorpbrennslu áminningu í maí og gaf frest til úrbóta til 1. september 2010. Jafnframt var farið fram á að Funi-sorpbrennsla léti framkvæma mælingar í byrjun september.

Umhverfisstofnun sendir bréf 8. september þar tilkynnt var að stofnunin hygðist panta og láta framkvæma mælingar á kostnað Funa-sorpbrennslu, þar sem það hafði ekki verið gert að frumkvæði sorpbrennslunnar eins og farið hafði verið fram á. Mælingar fóru fram 3. desember en þær drógust vegna þess að brennsla lá niðri um tíma og tæknibúnaður hjá Nýsköpunarmiðstöð var ekki aðgengilegur.

Umhverfisstofnun sendi Funa-sorpbrennslu bréf 16. desember þar sem tilkynnt er um áformaða sviptingu starfsleyfis komi í ljós að losun efna sé enn yfir leyfilegum mörkum í mælingunni sem framkvæmd var 3. desember. Niðurstöður úr þeim mælingum eru væntanlegar í janúar.