Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Jóhann Óli Hilmarsson

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur ákveðið að fyrirkomulag rjúpnaveiða í haust verði óbreytt frá fyrra ári. Veiðitímabilið hefst föstudaginn 29. október og stendur til sunnudagsins 5. desember. Á tímabilinu verður heimilt að stunda veiðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og verða veiðidagar því átján talsins.

Umhverfisráðherra greip til þeirrar nýbreytni í fyrra að setja reglugerð um rjúpnaveiði til þriggja ára, nema að óvænt þróun yrði í rjúpnastofninum á tímabilinu. Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands var veitt heldur meira af rjúpi í fyrra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Til að stuðla að því að veiði fari ekki aftur fram úr veiðiráðgjöf hefur umhverfisráðherra lagt áherslu á það við skotveiðimenn að þeir stundi hófsamar veiðar, en það er ein helsta forsenda þess að rjúpnaveiðar geti haldið áfram með sama hætti á næsta ári. Auk þess verður sölubann áfram í gildi á rjúpu og rjúpnaafurðum og ákveðið svæði á Suðvesturlandi verður áfram friðað fyrir veiði.