Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Nú stendur yfir samgönguvika og í tilefni þess er hvatt til þess að fólk hugi að samgöngum með það að markmiði að draga úr mengun. Á morgun er bíllausi dagurinn.

Umhverfisstofnun hyggst vera leiðandi aðili í vistvænum innkaupum ríkisfyrirtækja. Í því samhengi þá hefur stofnunin keypt bifreiðar sem hafa leyst af hólmi tvær Toyota Hilux disel bifreiðar. Með þessum kaupum reynir Umhverfisstofnun að draga úr neikvæðum áhrifum vegna samgangna stofnunarinnar.

Bílarnir sem um ræðir eru Toyota Prius tvinnbíll og Volkswagen Passat Variant Ecofuel1. Prius bílinn er með bensínvél en framleiðir rafmagn við keyrslu. Hann verður notaður af starfsmönnum Snæfellsjökulþjóðgarðs. Passat bílinn er með metan/bensín vél og verður aðallega notaður á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess, enda eru hvergi metanáfyllingarstöðvar annars staðar á landinu.

Ljóst er að því minni sem bílar eru þeim mun minni heildarumhverfisáhrif hafa þeir. Því þarf að liggja skýrt fyrir áður en farið er í bílakaup hvar og hvernig fyrirhugaður bílakostur á að vera notaður. Bílarnir sem keyptir voru hjá stofnuninni uppfylla allar þær ströngustu kröfur sem gerðar eru til bifreiða á Evrópusambandssvæðinu nú á dögum.

Umhverfisstofnun á einnig tvö reiðhjól sem starfsmenn nota til þess að fara á fundi eða sinna öðrum erindum í nágrenni við vinnustaðinn. Á starfsstöð Umhverfisstofnunar við Mývatn var bifreið skipt úr fyrir rafmagnsvespu til þess að ferðast á milli staða í sveitinni.