Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Veiðisvæði 9 verður lokað fyrir allar hreindýraveiðar frá og með 21. ágúst 2010. Svæðið samanstendur af Hornafirði, áður Mýrahreppi og Borgarhafnarhreppi (Suðursveit).

Vegna lokunarinnar mun Umhverfisstofnun endurgreiða veiðileyfisgjald þeim veiðimönnum sem ekki hafa náð að veiða samkvæmt úthlutuðum veiðiheimildum á þessu veiðitímabili.

Lokunin er samkvæmt 8. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða, nr. 486/2003, og er til komin vegna upplýsinga um verulega fækkun á fjölda dýra á veiðisvæði 9 frá því að auglýsing um hreindýraveiðar fyrir árið 2010 var birt í Lögbirtingarblaðinu 21. janúar 2010.

Breyting þessi er auglýst í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 486/2003 um stjórn hreindýraveiða, að fenginni tillögu Umhverfisstofnunar og að höfðu samráði við Náttúrustofu Austurlands og formann Hreindýraráðs, sbr. 14. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum með áorðnum breytingum.

Eins og fram kemur er ástæða lokunarinnar veruleg fækkun dýra á svæðinu. Í eftirlitsflugi 20. júlí 2010 fundust ekki nema 113 dýr og vantar því 134 dýr miðað við þær tölur sem gefnar voru út árið 2009 af Náttúrustofu Austurlands. Af 113 dýrum voru 107 dýr greind til kyns og aldurs. Kýr voru 45 en af þeim eru aðeins 22 á veiðanlegu svæðum og 23 á óveiðanlegu svæði. Veiðanlegir tarfar voru 8 en tarfaleyfin miðast við tveggja vetra tarfa og eldri. Af þeim dýrum sem vitað er með vissu að eru á svæðinu yrðu þá ekki eftir nema 65 dýr að veiðum loknum að meðtöldum kálfum og törfum á fyrsta ári. Útgefinn kvóti á svæðinu voru 29 kýr og 13 tarfar og því ljóst að verið væri að höggva stórt skarð í stofninn á svæðinu.