Stök frétt

Í árlegu eftirlitsverkefni Hollustuháttahóps Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga var gerð úttekt á þrifum og ýmsum öryggisatriðum í 85 íþróttahúsum á öllu landinu. Álag í mörgum íþróttahúsum er mjög mikið og sum þeirra í nær stanslausri notkun frá því snemma á morgnana og langt fram á kvöld. Við slíkar aðstæður sem og í öðrum íþróttahúsum er mjög mikilvægt að skipulag þrifa sé í föstum skorðum og að starfsfólk sem sinnir þeim hafi góðar leiðbeiningar. Einnig er mjög mikilvægt að öryggi notenda sé tryggt.

Niðurstöður eftirlitsverkefnisins leiðir í ljós að almenn þrif í íþróttahúsum virðast vera í góðu lagi og sjónrænt mat heilbrigðisfulltrúa á almennum þrifum styður það. En forstöðumenn íþróttahúsa mega taka sig á í að koma á skriflegri hreinlætisáætlun fyrir þrif á tækjum og búnaði, fyrir allsherjarþrif og fyrir þrif á blóði og líkamsvessum.

Vel loftræst ræstiaðstaða með skolvaski er til staðar í öllum húsunum en nokkuð vantar á að hún sé læst. Hreinsiefni geta verið hættuleg og eiga að geymast þar sem börn ná ekki til. Loftræsikerfi er í allflestum húsanna.

Varðandi öryggisatriði í íþróttahúsum þá er mikilvægt að forstöðumenn íþróttahúsa tryggi að Reglur menntamálaráðuneytisins um öryggi í íþróttahúsum séu til staðar og farið sé eftir þeim. Reglurnar voru til staðar í um 70% húsanna. Að undanskildum hitastýrðum blöndunartækjum og sjúkrakassa sem voru til staðar í yfir 90 % húsanna þá eru aðrir öryggisþættir sem spurt var um ekki í nógu góðu lagi s.s. neyðaráætlun, skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk, reglulegt eftirlit með búnaði til íþróttaiðkana sem og sjúkraherbergi eða aðstaða til aðhlynningar.

Forstöðumenn íþróttahúsa þurfa að taka sig verulega á í að lagfæra ástandið og þarf  heilbrigðiseftirlitið að fylgjast með að svo verði gert.