Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Starfsfólk Umhverfisstofnunar voru 73 um miðjan maí en eru nú 123 talsins. Hjá stofnuninni eru nú 50 sumarstarfsmenn sem er talsvert meira en undanfarin ár. Á hverju sumri koma til starfa landverðir yfir sumartímann og eru þeir að þessu sinni 13 talsins. Við það bætast svo aðrir sumarstarfsmenn sem koma í gegnum átak Vinnumálastofnunar og félagsmálaráðuneytisins.

Flestir eru starfsmennirnir úti á landi við vinnu á friðlýstum svæðum en einnig nokkrir sem sinna verkefnum, s.s. varðandi loftgæði, loftslagsmál og efnamál í Reykjavík.

Meðal verkefna að undanförnu má nefna gróðursetningu og lagfæringu stíga á Þingvöllum. Farið var með um 1000 plöntur, birki og víði, og var dugnaðurinn slíkur að kláraðist nánast á fyrsta degi. Þá var farið í að grjóthreins og lagfæra reiðstíga (Gjábakkastíg).

Í Viðey voru lagfærðir göngustígar við Kríusand og byggðar brýr yfir mýrar á 3 stöðum á Austureynni. Fólk í Viðey var himinlifandi yfir göngubrúnum og stígunum og viðraði þá hugmynd að fá hópinn aftur seinna í sumar.

Einnig hefur öflugur hópur verið að störfum í Esjunni við að laga göngustíga þar.