Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Þann 1. júlí sl. tók gildi ný reglugerð um kjölfestuvatn. Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir að framandi lífverur og meinvaldar berist með kjölfestuvatni til hafsvæða og stranda umhverfis Ísland með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Í þúsundir ára hafa menn notað kjölfestu, m.a. grjót, sand eða málma, til að auka stöðugleika lítt lestaðra skipa við siglingu á úthafi. Víða á ströndum hér við land má ennþá sjá steina úr bergtegundum sem ekki myndast hér og er talið að þeir hafi verið notaðir sem kjölfesta og borist hingað, jafnvel allt frá landnámstíð. Nú á tímum eru skip hins vegar hönnuð með tanka þar sem sjálfur sjórinn gegnir hlutverki kjölfestu. Með dælingu í þessa tanka og úr er auðveldara en áður að stýra magni kjölfestu í samræmi við aðra hleðslu skipsins. Kjölfestuvatn gegnir nú orðið grundvallarhlutverki í stjórnun skipa en með því má stjórna halla skips og djúpristu þess í því skyni að bæta stöðugleika þess og álagi á það. Nánar um kjölfestuvatn.Með útkomu reglugerðarinnar er lagt bann við losun ómeðhöndlaðs kjölfestuvatns innan mengunarlögsögu Íslands. Þó með þeirri undantekningu að ef aðstæður leyfa ekki losun kjölfestuvatns utan mengunarlögsögu vegna siglingaleiða, veðurs eða annarra aðstæðna, skal kjölfestuvatn losað utan 50 sjómílna frá landi þar sem dýpi er meira en 200 metrar.

Meðhöndlað kjölfestuvatn sem losað er innan mengunarlögsögu skal uppfylla gæðaviðmið sem lýst er í stöðlum D1 (útskolun) og D2 (hreinsun) samkvæmt OSPAR leiðbeiningum (Convention for the Protection of the Marine Environment of the North-East Atlantic) og/eða BWM samningi (International Convention for the Control and Management of Ships‘ Ballast Water and Sediments).

Í reglugerðinni er enn fremur kveðið á um að skip skuli halda kjölfestudagbók þar sem meðal annars skal skráð hvar og hvenær kjölfestuvatn er tekið upp eða losað.

Upplýsingar og ítarefni

Frétt á vef umhverfisráðuneytisins

GloBallast